Fara í efni

KJÓSUM 5. JÚNÍ 2010

Sæll Ögmundur.
Á Örstedskalanum gátu menn fengið - 23 í einkunn. Þá einkunn fengu til dæmis laganemar á munnlegum prófum sem kunnu minna en ekki neitt. Þetta er einkunnin sem íslenska valdakerfið fær í skýrslu rannsóknanefndar Alþingis. Þess vegna er skýrslan stórfrétt. Þótt eitt og annað megi finna að niðurstöðunum er frammistaða þriggja manna nefndarinnar sem pródúseraði bindin sjö upp á 7 og 2/3 á skalanum sem hér er nefndur.

Valdamiklir menn vanrækja starfsskyldur sínar og svíkja þjóð sína, ráðherrar og embættismenn, alþingismenn segja af sér andstætt hefðum íslenskum, og fjölmiðlar og háskólasamfélagið fara hjá sér af skömm. Allir vildu auðvitað hafa staðið sig betur.

En hvað gerir valdakerfi sem stendur sig svona illa? Hvaða gera ráðherrarnir og alþingismennirnir sem bera ábyrgð á því hvernig komið er? Hvað gera þeir sem hafa búið til og stuðlað að gjá "milli þings og þjóðar"? Hvaða gera þeir sem ekki höfðu hugmyndaflug til að lesa í ástæðurnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslunni um Ice-save, þeir sem bræði sinnar vegna gátu ekki skilið það sem forsetinn var að segja?

Valdakerfið féll á prófinu. Laganemar sem falla á fyrsta ári taka fyrsta árið auðvitað aftur. Frammistaða valdakerfisins er slík að það verður að fara taka upp fyrsta árið. Hvað þýðir það. Svarið er einfalt: Kosningar.

Af hverju? Svar: Skýrslan er staðfesting á því að Alþingi er umboðslaust. Menn komast hvorki lönd né strönd sem ætla að hasla sér völl með mínus tuttugu og þrjá. Kosningar á ný og rannsóknanefnd sem skoðar frammistöðu manna frá 8. október 2008 til dagsins í dag. Mætti ég leggja til laugardaginn 5 júní sem kjördag? Hvað finnst þér Ögmundur?

Kveðja,
Jóna Guðrún