Fara í efni

MEIRI GAGNRÝNI - MINNI VALDHLÝÐNI

Fyrir ekki löngu hlustaði ég á tvo dagskrárgerðarmenn tala við forseta Íslands. Þeir reyndu að taka hann í gegn fyrir að mæra útrásarvíkinga og fyrir að búa til ofurmenni úr íslenskri þjóð og menningunni sem hún skóp. Þetta gerðu dagskrárgerðarmennirnir á Rás 2 á grundvelli sem einhverjir aðrir höfðu skrifað í skýrslu, þ.e.a.s. siðfræðihópur Alþingis. Með skrif annara að vopni sóttu dagskrárgerðarmennirnir að forseta Íslands, sem honum líkaði illa, enda svaraði hann fyrir sig fullum hálsi svo af varð hanaslagur.

Svo gaus í Eyjafjallajökli eftir gjaldeyrisgefandi túristagos úr Fimmvörðuhálsi. Umfjöllun fjölmiðla hlaut að verða mikil enda vísindamenn, innlendir og ekki síður erlendir, búnir að ræða það frá í marz hvað gerast myndi ef gos brytist út í Mýrdalsjökli. Hingað streymdu aftur erlendir fréttamenn sumir hverjir sem áður höfðu miðlað fögrum næturmyndum frá Fimmvörðuhálsi, oftar en ekki með landann í forgrunni, fólk á gangi, á vélsleðum; íslenskir ofurhugar á breyttum, stórum jeppum, eða á þyrlum.

Myndin sem við drógum upp og útlendingarnir miðluðu var ekki ólík myndinni sem forseti Íslands hafði áður gert: Afkomendur víkinga berjast óttalausir við óblíð náttúruöfl sem þeir sigra svo að lokum. Margir hafa lagt gjörva hönd á plóg til að búa til þessa mynd af samtíð sinni, útrásarvíkingar, samtök þeirra, Samtök atvinnulífsins og forseti. Þetta var geggjuð mynd dregin upp af tiltekinni minnimáttarkennd, eða almennum menntunarskorti. Fyrir það gagnrýndi ég forseta til dæmis í ársbyrjun 2003 https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/rotlaus-i-leit-ad-sjalfsmynd
Í Fimmvörðuhálsgosi léku "ferðþjónustuaðilar" við hvern sinn fingur. En svo lauk því sjónarspili jafn skyndilega og það hófst. Grátt hversdagsleysið helltist yfir, en svo fór að gjósa í Eyjafjallajökli sjálfum. Loft var þrútið og þungbúið. Ekkert sást til jökulsins, enginn bísness. Og jökullinn spúði ösku og eimyrju upp í sex til átta kilometra hæð. Askan stefndi á Evrópu, flugsamgöngur fóru úr skorðum, og vísindafréttamenn og sérfræðingar kepptust við að skilgreina og skýra hið nýja gos. Gosið lenti á forsíðum allra blaða um víða veröld. Í öllum sjónvarpsþáttum, í öllum útvarpsfréttum, á öllum netmiðlum skeggræddu menn um gosið og afleiðingar þess. Einn þáttur var eins í allri heimsumfjölluninni - Katla. Í grenndinni var sem sé annað eldfjall og færi það að gjósa yrðu afleiðingarnar ógnvænlegar. Kötlugos yrði ekkert gamanmál, ekkert túristagos. Fólk var skelfingu lostið víða um heim.

Sté þá fram dagskrárgerðarmaðurinn úr forsetaviðtalinu en nú í öðru hlutverki. Hann tók nokkra menn tali til að ræða meðal annars eldgosið og var í hópnum fulltrúi "ferðaþjónustuaðila". Sá hafði skiljanlega sterkar skoðanir á "umfjöllum erlendra fjölmiðla" um afleiðingarnar af eldgosinu og hættunni sem, þeir sögðu að stafaði af ennþá stærra gosi úr Kötlu. - Við þurfum að stýra umfjöllun erlendra fjölmiðla um gosið. Koma á framfæri réttum upplýsingum. Og ekki var annað að heyra en dagskráðgerðarmaðurinn tæki undir í gríð og erg.

Ósjálfrátt var ég komin tvö til þrjú ár aftur í tímann og mér datt í hug útrás Geirs H. Harrdes og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í austurveg og vestur sem farin var í föruneyti fyrirtækja og útflutningsráðs þegar íslensk fyrirtæki, einkum bankar lentu í andróðri erlendis. - Við þurfum að stýra umfjöllun erlendra fjölmiðla um bankana. Koma á framfæri réttum upplýsingum. Það var ekkert að bönkunum, þetta snérist um "réttar upplýsingar".

Flugvöllum var lokað, flugbann sett á í Evrópu með skelfilegum afleiðingum fyrir alþjóðlega "ferðaþjónustuaðila". Þörfin fyrir að "miðla réttum upplýsingum til alþjóðlegra fjölmiðla" varð brennandi fyrir "Ísland". Spunamenn voru kallaðir til, settir voru upp samráðshópar stjórnvalda og iðnaðarins. Fundir stóðu lengi dags, allt framá kvöld. Það þurfti að stýra "erlendum fjölmiðlum". Þeir máttu ekki, eða gátu ekki, mótað sér skoðanir út frá staðreyndum sem fyrir lágu. Erlendir vísindamenn og vísindablaðamenn máttu helst ekki fjalla um málin öðru vísi en landinn hefði hönd í bagga með túlkuninni, ella gæti "ímynd" Íslands laskast. Nauðsyn "réttu upplýsinganna" fór að lifa sjálfstæðu lífi í fjölmiðlum.

Þegar svo enginn átti sé ills von féll sprengjan!! Forseti Íslands gerði hugsanlegt Kötlugos að umræðuefni á sjálfri BBC stöðinni í Bretlandi. Hann sagði frá því sem gat gerst. Hann hélt sig við staðreyndir og varaði við að gosið í Eyjafjallajökli væri bara æfing í ljósi þess sem gerst gæti færi Katla að gjósa. Talaði forseti þarna á sömu nótum og vísindamenn og vísindablaðamenn höfðu skeggrætt frá því í túristagosinu úr Fimmvörðuhálsi.

"Ferðaþjónustuaðilar" og samtök þeirra gengu af göflunum vegna orða forseta. Samtök atvinnulífsins, sem fremur hefðu átt að gera upp fortíð sína á aðalfundinum sem bar heitið  Áfram, áfram ekkert stopp eða eitthvað þvíumlíkt, tóku sér tíma í að álykta um forsetann og slógust með því för með fordæmendum. Á Alþingi fóru ráðherrar og þingmenn í ræðustól í upphafinni samræmdri fordæmingu á forseta. Og fjölmiðlarnir, Mogginn, Staksteinar og Smugan tóku undir eins og bakraddasöngkonur valdsins.

Við hin fylgjumst með og þykjumst þess fullviss að skotleyfið, sem gefið var út á forsetann, ofsinn í viðbrögðunum, er líkast til vegna almennrar andúðar á honum og vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave sem hann efndi til Þetta má lesa um í Fréttablaðinu í dag. Á þessum grundvelli ná þau saman Sjálfstæðisflokkurinn og Síð-sovétið í gagnrýninni á Ólaf Ragnar. 25 ára óvild beggja endurspeglast í afstöðunni til forseta.

Er ekki kominn tími til að nálgast hagsmunaaðila, spunamenn og valdið, með ganrýnum efnislegum hætti í stað þess að stinga upp í menn míkrófóni í tvær til tuttugu mínútur og vera bara giska ánægður með frammistöðu sína? Meiri gagnrýni, minni leti. það er misskilningur ef menn halda að fjölmiðlarnir hafi fengið syndakvittum frá nefnd löggjafarvaldsins.

Ólína