Fara í efni

SIÐBLINDIR DÆMI EKKI UM HVAÐ SIÐLEGT ER

Sæll Ögmundur.
Það er margar góðar greinar og lesendabréf á vefsíðunni þinni og það er gleðilegt að sjá okkur venjulegt alþýðufólk hafa vettvang sem við getum viðrað áhyggjur og skoðanir okkar, en það veitir þú okkur og átt þakklæti fyrir Ögmundur!
Árni Þorsteinsson https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/traustid-er-hrunid   bendir réttilega á að Atli Gíslason alþingismaður sem mörg okkar hafa byggt vonir með innan um hálfgerðan furðulýð á Alþingi, hafi varað menn við „að stíga afskaplega varlega til jarðar varðandi sýkn eða sekt þeirra sem þingnefndin mun fjalla um." Árni er eðlilega undrandi og fyrir vonbrigðum af slíkum umælum þingmanns sem maður hefur lagt traust til og þarf á að halda á ögurtímum. Þjóðin heimtar að glæpamennirnir sem hafa svikið hana, hvort þeir séu stjórnmálamenn í ríkisstjórn eða pólitískir klíkukarlar og fjárglæpamenn, að slíkt hyski verði tekið föstum kverkatökum!
Árni bendir ennfremur á að það sé alþýða þessa lands sem á að ráða örlögum þessa fólks, ekki sjálft glæpapakkið og afglapa pólitíkusar!  Árni telur af orðum Atla Gíslasonar, að þingmenn og pólitíkusar allra flokka munu aðeins klappa á kollin á þingmönnum og pólitíkusum allra flokka með silkihanska, eins og venjulega einsog ekkert hafi breyst og ekkert muni breytast! Það á að halda leynd og svartnæturpukri áfram, kljá hvorum öðrum og sópa ruslinu undir teppið!
Árni telur að búsáhalda byltingin með eldköstum, málningar- og skyrslettum muni virðast sem „helgarleikur á leikskóla miðað við það sem koma mun, verði enginn dregin til „pólitískrar" ábyrgðar" né fjárglæpamenn fangelsaðir og gerðir upp!
Ég tel að Árni Þorsteinsson hafi mikið til síns máls og mótmæli ráðleggingum Atla Gíslasonar um vettlingatök á meintum glæpamönnum og afglöpum! Ég vil einnig minna Ólaf  Þór Haukson sérstakan saksóknara, sem heldur fram að „siðleysi sé ekki endilega sakamál" að öll lög byggjast á siðferði þjóða, beint eða óbeint, og ef núverandi lög eru siðlaus, eða byggja ekki á siðferði, þá sé eins gott að kippa þeim í lag hið snarasta, því ef siðblindu fólki sé ætlað að dæma hvað siðleysi sé og hvað sé glæpur, og skilja þar á milli, þá líst manni ekki á blikuna! Það má vel vera að hér grilli í siðspillingu lögfræðistéttarinnar sem hefur tröllriðið þjóðfélaginu!
Ég sé ekki fyrir mér að höggstokkur frönsku byltingarinnar, fjöldahengingar Englendinga eða skotaftökur Rússa verði innleitt á Íslandi. Jafnvel ekki gapastokkar miðalda þó ágætt væri... en þjóðin vill að hendur verði hafðar í hári stórglæpamannanna og pólitískra afglapa, þeir lokaðir inni og illafengnu þýfi þeirra skilað til þjóðarinnar. Alþýðan vill ekki aðeins að glæpamönnunum og afglöpunum sem gerðu fjár og siðferðishrun þjóðarinnar mögulegt, verði hegnt, og það rækilega, þjóðin heimtar HEFND!    
Úlfur