Fara í efni

SVO SAMFÉLAGS-STRÚKTÚRINN VERÐI EKKI ÉTINN UPP

Heill og sæll Ögmundur Í tilefni dagsins, 12.apríl 2010, er tvennt sem mig langar að minnast á, sem mín fyrstu viðbrögð. Í fyrsta lagi er augljóst, líkt og Th. Jefferson benti margsinnis á, að utan um banka og fjármálastofnanir þarf að setja sértækar, sérstakar, gegnsæjar og ófrávíkjanlegar reglur -lög og reglugerðir- til að þær éti ekki samfélags-strúktúrinn upp. Það var vegna siðblindrar græðgi sem allt gumsið hrundi. Í öðru lagi -og það horfir til framtíðar- þá vil ég vara við því að lagasetjarar og reglugerða-sadistar fái nú leyfi -skotleyfi- að fara hamförum í að setja ólar og bönd á allt mögulegt annað í forræðishyggju sinni. Hér á ég við skrifræðis- og forræðis- valdabríma stofnana ríkisins, með blindum Brussel kyrkingi á heilbrigða og frjóa sköpunar og atvinnugleði fólks. Traust býr til traust, svona að öllu jöfnu, í samfélagi okkar mannfólksins. Tek svo undir með Friðjóni Steinarssyni að hér á landi vantar alvöru Sósíalistaflokk, að mínu upplagi mætti hann hafa anarkískt kryddaðan huga, en hjartað alltaf sósíalismans. Frelsið og jafnréttið samtvinnað í fegurð lífs okkar. Free Bird með Lynyrd Skynyrd, 1975 útgáfan, gæti td. verið flokks-söngurinn:)
Ps. Ég spurði Steingrím J. Sigfússon að því í júlí 2009, fyrir utan Bæjarins bestu, hvort hann væri sósíalisti...hann hváði, eins og hann væri búinn að gleyma orðinu. Þá spurði ég hann, hvað hann væri eiginlega...þá hopaði hann af hólmi og lullaði upp í Arnarhvál. Þetta er furðusaga, en hún er dagsönn.
Pétur Örn Björnsson