Fara í efni

EINOKUNAR-VERSLUN AÐ NÝJU

Sæll enn og aftur Ögmundur.
Ef við leikum okkur aðeins með hugtök og setjum Einokunarverslun Dana á Íslandi 1602-1787 í staðinn fyrir Magma Energy, myndu þá Sjálfstæðismenn vera jafn brattir í þessum málum og þeir virðast hafa sýnt? Braskaranir sem standa á bak við Magma gætu alveg eins verið að bjóða Íslendingum upp á einokun eins og hún var verst fyrir 220-410 árum. Íslendingar eiga eftir hugmyndum þeirra að taka á sig stofnkostnað og bjóða á þessum kumpánum upp á kúlulán í boði Sjálfstæðisflokksins í Keflavík. Ekki eina einastu krónu á að greiða fyrir aðganginn að orkuforða þjóðarinnar sem fólginn er í jarðhita landsins. Yfirtekin eru lán Geysir Green að nafninu til sem í dag virðist ekki vera sérlega fjárhagslega burðugt. En Magma virðist vera jafnvel enn skuldsettra fyrirtæki en Geysir Green þó svo skuldum Atorku sé bætt við. Íslenskir lífeyrissjóðir töpuðu milljörðum á falli þessara fyrirtækja sem þó eiga að heita íslensk, alla vega að nafninu til.
Stjórnvöld hafa ekkert aðhafst til að verja þessi fyrirtæki en Sjálfstæðisflokkurinn vill ljá máls á að veita útlendu fyrirtæki með skúffuaðgengni gegnum Svíþjóð að þessu fjöreggi þjóðarinnar. Lífeyrissjóðir landsmanna ásamt hundruðum jafnvel þúsundum sparifjáreigenda töpuðu tugum milljarða á vægast sagt furðulegum nauðungasamningum. Hefði Atorka verið sett í gjaldþrotameðferð hefðu hluthafar haft andmælarétt og komið hagsmunum sínum að. Atorka lenti í höndum á hrægömmum og það sama má segja um Geysir Green. Þessi mál verða að sæta opinberri rannsókn og ekkert má vera undanskilið. Hagsmunir okkar eiga að vera taldir meiri en erlendra braskara sem vilja læsa hrömmum sínum í varnarlitla lífeyrissjóði og smáa hluthafa sem tapað hafa áratuga sparnaði sínum. Hvet sem flesta að kynna sér betur þessi mál. Samlíkingin við dönsku einokunarverslunina er því miður ekki út í hött þó einhverjir firtist við. Baráttukveðjur fyrir betra mannlífi á Íslandi! Guðjón Jensson, Mosfellsbæ