EKKI FARA Í GAMLA FARIÐ!

Ólof Nordal, þingkona Sjálfstæðisflokksins, sagðist í morgunþættinum Sprengisandi á Bylgjunni, vilja kosningar sem fyrst. Núverandi ríkisstjórn sé ekki nógu góð því að það "sér í ágreininiginn" sagði hún. Það er nokkuð til í því hjá Ólöfu og það er líka staðreynd að á sínum tíma  "sá ekki í ágreininginn" hjá þeim Davíð og Halldóri og lítið hjá þeim Geir og Sólrúnu. Öll plástruð í bak og fyrir. Allt í leyni. Allt sukkið og svínaríið í leyni. Viljum við það? Viljum við ekki frekar heiðarlegar málefnalegar umræður um þau mál sem skiptar skoðanir eru um? Það vil ég. Og ekki vil ég gömlu einkavæðingarflokkana aftur inn á gafl. Þeir studdu báðir aðkomu laumufjárfestanna í Magma Energy að eignarhaldi HS orku. Nei takk. Ekki gamla spillingarsettið. Ég verð þó að viðurkenna að sú stjórn sem nú situr verður að taka sig á og breyta um kúrs. Annars liggur leiðin í gamla farið.
Sunna Sara

Fréttabréf