HVERS VEGNA ER ÞAGAÐ UM KADECO?

Sæll Ögmundur,
Lítið hefur farið fyrir umræðu um einkavæðinguna á herspítsalanum á Keflavíkurflugvelli að undanförnu. Ekki er ég endilega andvígur einkarekstri Wessmanns, heldur fæ ég ekki séð hvers vegna ríkisfyrirtæki ætti að koma að honum. Eina ástæðan sem ég sé fyrir því að ríkið byggi upp spítalann hlýtur að vera sú að kostnaðaráætlanir þar um munu vitanlega fara verulega úr böndunum eins og ávallt gerist og auðvitað vill einkaaðilinn verja sig gagnvart því. En það sem ég vildi gera að umræðuefni nú er annað og það er ógagnsæið í þessu máli öllu en þar hlýtur þú að spyrja sjálfan þig um ábyrgð ríkisstjórnarinnar þinnar sem fer með hlutabréfið í Kadeco og er ábyrgt fyrir framferði minna manna, Árna Sigfússonar bæjarstjóra o.fl. sem er í stjórn Kadeco, en sjálfur er ég sjálfstæðismaður - óánægður sjálfstæðismaður. Ég er ekki par sáttur við mína menn og leyfi mér að spyrja hvað þér finnist um framgöngu þinna manna Ögmundur. Ég vil frjálst markaðskerfi en ekki spilllingarkerfi.
Ég sé í ársreikningi að árið 2007 hefur ríkið lagt félaginu til rúman milljarð. Aðrar tekjur þess voru rúmlega 100 milljónir. Rekstrarkostnaður var ríflega milljarður og fór að mestu í rekstur fasteigna.
Heildareignir félagsins eru metnar á 314 milljónir.
Félagið hefur umsýslu með eignum og má selja þær eða leigja að vild. Ekki hvílir útboðsskylda á félaginu.
Ársreikningur 2008 er ekki sjáanlegur á vefsvæðinu. Ekki heldur 2006.
Þóknun formanns var 3.6 milljónir á árinu og fengu hinir tveir stjórnarmennirnir helming þess.
Af framansögðu er ljóst að amk á árinu 2007 er ríkið að greiða milljarð með rekstri þessa félags. Þá vill maður vita meira. Til dæmis:
Hversu mikið var lagt til félagsins 2008? En 2009?
Hver verða framlögin í framtíðinni?
Er til viðskiptaáætlun fyrir félagið? Ef svo er, hvenær er áætlað að ríkið fái framlag sitt endurgreitt?
Hvernig er staðið að ákvörðunum um fjárfestingar og þátttöku í verkefnum einkaaðila?
Hvers vegna hvílir ekki útboðsskylda á félaginu?
Hvers vegna hafa fjölmiðlar ekki kafað í þetta mál? Samtrygging allra flokka?
Kveðja,
Óánægður Sjálfstæðismaður 

Fréttabréf