ÞÖRF Á OPINBERRI RANNSÓKN

Heill og sæll Ögmundur!
Mikið er eg sammála þér varðandi þetta Magma mál. Það er mikil pólitísk skítalykt af þessu máli og á ferðinni einhverjar furðulegar bókhaldsbrellur. Forsögu þessa máls má rekja nokkra áratugi aftur í tímann: Fyrir nær 2 áratugum var fyrirtækið Jarðboranir einkavætt fyrst að hluta og síðar að öllu leyti. Yfir þúsund einstaklinga voru hluthafar og greiddu með beinhörðum peningum. Síðar keyptu ýmsir athafnamenn stóra hluti í fyrirtækinu, sjálfsagt fyrir lánsfé og má þar nefna Margeir Pétursson sem nú rekur banka í Reykjavík. Kunnur kvótagreifi að norðan, Þorsteinn Vilhelmsson kemur við sögu fyrirtækisins Atorku ásamt fleiri fjármálamönnum sem yfirtekur Jarðboranir fyrir nokkrum árum. Jarðboranir voru reknar eins og alvörufyrirtæki með fremur lágar arðsgreiðslur undir stjórn Bents Einarssonar. Þeir Atorkumenn buðu skipti á hlutafé Jarðborana í hlutföllunum 25:6 þannig að hver hlutur í Jarðborunum var metinn á genginu 25 meðan hlutafé Atorku var verðlagt á 6 falt nafnverð. Mjög háar arðsgreiðslur voru þá þegar greiddar hjá Atorku og létum við hinir grunlausu smáhluthafar það gott heita. Svo kemur að því með svonefndu REI máli að gengi Atorku er komið í 11,4. Þá hafði í millitíðinni verið stofnað nýtt fyrirtæki, Geysir Green Energy. Þegar REI ævintýrið rann út í sandinn hrapaði gengi Atorku mjög hratt og varð lægst 0,5 þegar fyrirtækið var tekið af markaði. Síðan hefur hvert áfallið komið í kjölfar annars: allt í einu er fyrirtækið svo skuldsett að það væri ekki á vetur setjandi. Þó höfðu stjórnendur þess ætíð talað svo að þetta væri eitt best rekna fyrirtæki landsins með einna traustustu og bestu möguleika til góðrar fjárfestingar. Svo virðist sem eigur þess hafi verið yfirveðsettar til að halda uppi háum arðgreiðslum og háum stjórnunarkostnaði á sama tíma og tekjur af hinni erlendu starfsemi fyrirtækjasamsteypunnar skruppu mjög saman. Atorka og Geysir Green voru alltaf í mjög nánu samstarfi. Fyrir nokkrum misserum voru Jarðboranir "seldar" GGE gegn hlutabréfum í því síðarnefnda án þess að slík ákvörðun væri borin undir hluthafafund. Undanskildar voru nokkrar verðmætar eignir Jarðborana sem voru teknar af þeim. Þetta hefur stjórnendum Jarðborana sviðið mjög en ekki varð rönd við reist. Á síðasta ári voru bæði þessi fyrirtæki Atorka og Geysir Green Energy fjárs vant og voru yfirtekin af kröfuhöfum, alla vega það fyrrnefnda af hrægömmunum, okkur litlu hluthöfum til mikils ama og sársauka. Þar fór nánast allur ævisparnaður minn og fjölskyldu minnar í formi hlutabréfa á einni nóttu. Síðan fréttist það einkennilega: Magma Energy er mjög skuldsett fyrirtæki ekki síður en Geysir Green Energy sem er n.k. sporgönguaðili í einhverjum mjög einkennilegum bókhaldsleik þar sem tengist stjórn Sjálfstæðisflokksins í Keflavík (Reykjanesbæ) . Athygli vekur að forstjóri Geysir Green, Ásgeir Margeirsson er nú forstjóri Magma Energy sem virðist vera n.k. pósthólfafyrirtæki staðsett í Svíþjóð til að komast fram hjá ákvæðum EES um rekstur fyrirtækja á evrópska efnahagssvæðinu. Hvort um sé að ræða óskiljanlega þolinmæði yfirvalda að leyfa endalaust brask með eigur annarra skal ósagt látið en allt þetta mál má heita furðulegt frá upphafi til enda. Sjálfur hefi eg engra hagsmuna að gæta að svo stöddu, eigurnar okkar alþýðumannanna sem vildu taka þátt í rekstri fyrirtækja með að leggja fram áratuga sparnað okkar í hlutafé, fuðruðu upp í höndum á þessum athafnamönnum sem leika enn lausum hala í þessu samfélagi með sínar bókhaldsbrellur og ágirnd í sameiginlegar eignir íslensku þjóðarinnar. Eg stend að baki þér Ögmundur í þessu máli. Og við eigum að krefjast opinberrar rannsóknar á öllum þessum einkennilegu fjármunagernigum nú þegar! Guðjón Jensson, Mosfellsbæ

Fréttabréf