Fara í efni

TILLAGA Í ATVINNUMÁLUM

Það er hægt að fækka atvinnulausu fólki um þúsundir strax í sumar ef vilji er til þess með einni stjórnvaldsaðgerð sem er fullkomlega eðlileg við núverandi aðstæður. Auðvelt er að fækka atvinnulausum um a.m.k. 6 þúsund strax í sumar og myndi það spara atvinnuleysistryggingasjóði milljarða króna á einu ári, með miklu minni tilkostnaði hjá ríkissjóði og hjá sveitarfélögum. Fyrir utan ýmiskonar annann kostnað bæði peningalegan og heilsufarslegan.
Auk þess myndi þrýstingur á ríkissjóð minnka stórlega um að fara í umdeildar framkvæmdir einnig myndi slík tilfærsla auka hagvöxt verulega strax sem hefði áhrif út allt samfélagið strax með mikilvægum áhrifum á atvinnulífið.
Þetta yrði gert með því að gefa út neyðarlög með fastan gildistíma sem og tæki gildi strax 1. júlí n.k. sem og með smán saman minnkandi áhrifum uns lögin féllu úr gildi enda kreppan liðin hjá. Megin inntak þessara laga væri, að allir Íslendingar sem verða 65 ára á þessu ári og eldri gæfist kostur á því að fara á eftirlaun frá og með 1. júli n.k., að með því boði væri einnig einhver hvatning sem gæti verið með ýmsum hætti.
Ríkissjóður myndi greiða lífeyrissjóðunum þau iðgjöld sem borist hefðu af þessu fólki þessi næstu tvö ár. Í stað þeirra starfa sem þá losnuðu yrðu fyrirtækin að ráða ungt fólk af atvinnuleysisskrám í stað eldra fólksins. Það er miklu ódýrara að greiða lífeyrissjóðunum þessi iðgjöld heldur en að hafa sama fjölda á atvinnuleysisbótum. Auk þess að þetta fólk færi þá að greiða skatta og skyldur.
Venjulegur árgangur Íslendinga er nálægt 4200 einstaklingar en þeir árgangar sem þarna er um að ræða eru óvenju stórir. Varlega mætti áætla að þetta væri um 6000 einstaklingar. Patentlausn? Nei, skynsemi. En það er vitað, að Íslendingar hafa aldrei getað tekið á móti einföldum og róttækum lausnum og því mun svona tillaga annað hvort verða þögguð í hel og eða kjöftuð í hel af ýmiskonar hagsmunasamtökum. T.d. af landsambandi prjóna- og saumaklúbba eða af Karlakórasambandi Íslands.
Kristbjörn Árnason