Fara í efni

ÚTVERÐIR EVRÓPU

Sæll Ögmundur.
Þeir skrá dýra bíla á einkahlutafélög, þeir reka sig í gegnum einka- og samlagsfélög, og þeir vinna mestan part sem verktakar hjá þessum einkahlutafélögum. Þeim voru búin þessi skattalegu skilyrði. Þeir eru Grikkir, útverðir Evrópu til austurs, þeir sem búa fjærst þeim sem eru útverðirnir til vesturs.
Á aldarfjórðungi hefur þetta gríska "skattaundanskotakerfi" verið þróað sem nú ógnar gjörvöllu gríska samfélaginu og mun um langt árabil leggja þungar byrðar á herðar fátæks fólk í þessu sögufræga ríki. Undarlegt að hér uppá Íslandi skuli fjölmiðlar ekki útskýra í smæstu atriðum hvernig "skattaundanskota"kerfið gríska hefur lagt samfélagið á hliðina úr því menn eru á annað borð að greina frá þessum atburðum. Kannske er skemmtilegra að taka spjallið á Grikkland - það styggir engan. Og það fær ekki fólk hérlendis til að velta fyrir sér skattkerfinu sem hér var byggt upp í fjármálaráðherratíð Friðriks Sophussonar, Geirs H. Haardes, og Árna Mathiessens, og menn eru þá ekkert að velta fyrir sér hverjir kröfðust þessa kerfis hér um árabil og gera enn. Verslunarráðið, Viðskiptaráðið, Samtök atvinnulífsins, Sjálfstæðisflokkurinn og Vilhjálmur Egilsson, sem hagsmunatalsmaður og alþingismaður. Betra og öruggara að spjalla bara um hlutina.
Í fínu hverfi á Aþenu sögðust 324 fasteignaeigendur vera með einkasundlaug við hús sitt. Grísk skattayfirvöld komust að því með gervihnattamyndum að einkasundlaugatalan var ekki rúmlega 300 heldur 16.974. Tugir þúsunda Grikkja gátu í þessu hverfi stungið sér í einkalaug á morgnana, en ekki nokkur hundruð þegar betur var að gáð.
Þeir sem teljast til mestu skattsvikaranna í Grikklandi og þeir sem notið hafa "skattaumbóta" síðustu áratuga þar í landi eru umfram allt svokallaðir sjálfstæðir atvinnurekendur minni fyrirtækja, sem rekin eru sem einkahlutafélög eða samlagsfélög. Kannast menn við það? Það eru ekki bara hinir klassísku í þessum hópi, leigubílstjórar, rekendur veitingahúsa, og iðnaðarmenn í verktöku, nei í Grikklandi eru þetta líka verkfræðingar, arkitektar, lögmenn og læknar.
Þetta er Grikkland. Hvernig ætli staðan sé hjá útverðinum í vestri, hinum megin á Evrópu. Þjóðverjar hafa gert úttekt á velferðarkerfi einkahlutafélaganna grísku og vilja helst ekki bjarga þeim úr sjálfsskaparvítinu. Ætli þeir hafi skoðað Ísland? Ætli þeir fatti þetta með einkahlutafélögin og kúlulánin, ætli þeir viti hvaða samfélagshópar stóðu í einmitt þeim "sjálfstæða atvinnurekstri" á Íslandi?
Grísk skattayfirvöld skoðuðu nýlega sjálfstæðan stofurekstur lækna. Þeir skoðuðu rekstur 150 lækna í hverfi sem einkennist annars af Prada og Chanel verslunum. Helmingur læknanna þóttist þéna minna en 40 þúsund dali á ári. 34 sögðust þéna minna en 13.300 dali og lentu þar með undir grískum skattleysismörkum og greiddu því enga skatta.
Íslenskir fjölmiðlar eh (eh = eftir hrun) hafa lítið breyst. Góðir í spjallinu, en minna fyrir að upplýsa af nákvæmni sem er óháð starfsmannafjölda. Af hverju hafa þeir sagt okkur svona lítið um þróun skattamála á Grikklandi í aldarfjórðung? Af hverju leggja þeir svona mikla áherslu að þvæla um ríflegan lífeyrisrétt Grikkja? Óþarfi að kóa með stjórnvöldum sem sitja nú á sakamannabekk fyrir vanræslu. Það vantar meiri metnað í fjölmiðlana. Það vantar meiri gagnrýni í fjölmiðlana. Það er svo sérstakt rannsóknarefni af hverju enginn munur er á RÚV og Mogga í þessum efnum.
Það þarf að bera saman samfélags- og skattkerfisþróun hér og í Grikklandi í aldarfjórðung. Kannske eitthvað sé líkt með útvörðunum í austri og vestri, annað en glæsileg bókmenntahefð fortíðar, ekki veit ég - saklaus sveitastúlkan.
Kveðja,
Jóna Guðrún