Fara í efni

BRENNT BARN FORÐAST ELD EÐA HVAÐ??

Til stendur að skipta Orkuveitu Reykjavíkur upp í OR dreifingu og OR framleiðsla eða eitthvað í þá átt. Við sjáum nú hver niðurstaða svipaðrar skiptingar hjá Orkuveitu Suðurnesja varð. Framleiðsluhlutinn  hefur nú lent hjá kanadíska fyrirtækinu Magma. Eina sem Magma þurfti var að yfirtaka skuldir, fá kúlulán frá OR auk þess að leggja fram einhverja smáaura í þessu stóra samhengi.
Fram hefur komið að OR skuldar 240 miljarða. Hvað verður gert við þær skuldir? Varla munu þeir sem OR skulda, sætta sig við að hluti fyrirtæksins verði skráður á aðra kennitölu. Spurningar vakna, hverjar eru tryggingar á hinum erlendu lánum. Varla kemst OR upp með kennitöluflakk. Er ekki raunveruleg hætta á að svona æfingar með fyrirtækið leiði til þess að það lendi hjá einhverjum kröfuhöfum eða í skúffunni hjá Magma, þegar fordæmin hafa verið gefin?
Þessar spurningar vakna í kjölfar fréttar um að Björn Valur þingmaður VG teldi að ekki væru til peningar hjá ríkinu fyrir orkuveri. Er það virkilega svo að við eigum ekki aura fyrir undirstöðu atvinnuvegum okkar. Ég minnist ekki að blankheitum hafi verið borið við þegar mokað var fé í tryggingafélagið Sjóvá. Ef við höfum ekki efni á því sem við byggjum afkomu okkar á, hver er þá framtíðarsýn þingmannsins og annarra þingmanna VG? Varla Evrópusambandið eða hvað?
Að lokum, er ekki kominn tími á að sækja um undanþágu á raforkutilskipum ESB um raforkudreifingu? Við erum jú 300 þúsund íbúar í strjálbýlu landi og erum ekki tengd við raforkukerfi annarra landa. Samkeppni á á slíkum markaði er fáránleg og í besta falli hlægileg. Það er í raun hrollvekjandi að sækja þurfi um leyfi hjá ESB til þess að byggja upp fyrirtæki eftir okkar höfði og reynslu, sem fullnægir kröfu okkar um gæði, öryggi og góða þjónustu.
Húsmóðir í austurbænum