Fara í efni

FARIÐ VARLEGA Í SKATTANA

Sæll Ögmundur.
Þú hefur verið áberandi í skattaumræðunni á Íslandi í dag og margt sem þú hefur sagt er ég fullkomlega sammála. Mig langar að benda þér á eina hlið málsins. Þ.e. skattahækkanir á svokallað ungt hátekjufólk. Núna er ég t.d. í þeirri stöðu að ég útskrifaðist með meistaragráðu í verkfræði 2006, ég flutti til Íslands 2007 og framdi þann syndsamlega verknað að kaupa mér íbúð, fór varlega í sakirnar og tók aðeins verðtryggð hefðbundin lán. Ég er ekki með nein erlend lán. Staðan mín er þannig í dag að ég vinn fyrir íslenska verkfræðistofu, ég er staðsettur í Noregi en borga skatta og skyldur heim til Íslands. Ég hef góðar tekjur þegar ég vinn hér í Noregi, mikið til vegna þess að það kostar morðfjár að lifa hérna, og ég vinn mjög mikið.
Íslensku launin duga skammt ef maður býr í Noregi, en þau duga til að standa í skilum með íbúð og fleira heima á íslandi. Ég mundi að öllum líkindum flokkast undir hátekjumann á Íslandi, en hér í Noregi er grjónagrautur og pasta á matseðlinum hjá mér :-). Lífsgæðin eru mjög skerrt miðað við svokallað "hátekjufólk" á Íslandi.
Nú er ég óneitanlega að hjálpa þjóðarbúinu með því að leggja til gjaldeyrir. Íslenska verkfræðistofan selur mig út fyrir erlendan gjaldeyrir og borgar mér íslensk laun. Það hefur oft hvarlað að mér að stíga skrefið til fulls og flytja alfarið til Noregs, borga mína skatta og skyldur þar. En ég hef ekki gert það enn.
Þau skilaboð sem ég vil beina til þín er að fara varlega í að hækka skatta á ungt hátekjufólk sem flokkast undir hátekjufólk vegna þess að það er mjög duglegt að vinna og færir miklar fórnir (fjöldskylda mín og nýfætt barn býr til að mynda á íslandi). Það er nógu erfitt fyrir ungt fólk að standa í skilum í dag með stökkbreytt lán hvort sem þau eru gengistryggð eða verðtryggð. Stjórnvöld hafa verið svolítið gjörn á að velta skuldabagganum á þennan þjóðfélagshóp, þ.e. ungt, vel menntað, barnafólk.
Með kveðju,
Guðjón Örn