Fara í efni

VILL EKKI LÁTA ÓTTANN STÝRA FÖR

Þeir sem eru eldri en tvævetur muna að þessi ríkisstjórn nokkurskonar rótarskot Samylkingar frá þeirri stjórn sem Ingibjörg Sólrún og Geir leiddu. Árátta Samfylkingar á síðustu dögum fyrri stjórnar hefur einnig náð tökum á mönnum í þessari stjórn. Áráttukennda hegðunin sem ég vísa til er að halda sér til hlés og gera ekkert á meðan á móti blæs - væntanlega í þeirri von að þegar lygnir sé hægt að skríða úr felum, standa í lappirnar og halda sjálfsvirðingunni. Það lukkaðist reyndar við síðustu stjórnarslit því VG tóku sig til og framlengdu pólitístk líf Samfylkingarráðherrana með því að búa til fyrstu hreinu vinstri stjórn Íslandssögunnar sem hefur æ síðan skákað í því skjóli að fari hún frá taki ekki betra við.
En Samfylkingarráðherrar hljóta að spyrja sig hverjir eigi að bjarga þeim næst því þeir eru á harðahlaupum inn sömu blindgötuna og síðast. Samfélagið allt kallar á pólitíska forystu og leiðsögn um hvernig eigi að leiða mál til lykta en ráðherrar ríkisstjórnarinnar halda áfram að flokka pappíra á borðinu sínu. Þessi stjórn lafir á þeirri ógn einni að íhaldið taki við fari hún frá. Stuðningsmenn hennar hafa þverrandi trú á verkum hennar heldur byggir stuðningurinn á óttanum við sameiginlegan óvin. Ráðleysið í þessu gengistryggingarmáli er ekki úrslitamál heldur einn naglinn til viðbótar í kistuna. Þessi stjórn er ekki á vetur setjandi og trúlega veit hver einasti kjósandi það í hjarta sínu.
Það sem meira er, þá tel ég að æ fleiri séu orðnir leiðir á að láta þennan óttaáróður stjórna bæði tilfinningalífi sínu og stjórnmálaskoðunum og hætta að ríghalda sér í stjórnfyrirkomulag sem ræður aðeins við það eina verkefni að halda völdum frá degi til dags.
Árni V.