Fara í efni

EKKI FLEYGJA ÞJÓÐINNI INN Í ESB

Undirritaður hlustaði á nokkuð yfirlætisfullar staðreyndarfærslur utanríkisráðherra nú fyrir skemmstu. Staðreyndarfærslur þessar tilheyra þeirri ógn og skelfingu sem yfir okkur kunna að hellast í líki hörmungar þeirrar er sambandsaðild Evrópu kallast. Í umfjöllun sinni vildi téður ráðherra gera lítið úr þeim áhyggjum manna sem ótta bera fyrir brjósti varðandi sjávarútvegsmálin. Hann fullyrti að regluverk ESB virkaði með þeim hætti að allar þær þjóðir innan þess sem ekki hefðu áunnið sér veiðireynslu innan íslenskrar fiskveiðilögsögu í að minnsta kosti 12 til 15 ár gætu ekki reiknað með að komast í okkar lögsögu. Sem betur fer mun viðk. ráðherra ekki fara með þennan málaflokk fyrir hönd þjóðarinnar heldur maður sem sýnt hefur að þarna verði ekki kastað til höndum og vona ég að Jón muni fá staðfestingu á ummælum þessum hið fyrsta hjá fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins. Mér finnst það hroðaleg handvömm að ætla að fleygja þjóðinni þarna inn bara til þess eins að fá evruna til að leysa krónuna af. Kveðja,
Óskar K Guðmundsson fisksali