BARÁTTAN UM ÍSLAND
Sæll Ögmundur.
Ég skil átökin sem eru að magnast nú sem baráttu um Ísland.
Baráttan um Ísland hófst eða staðfestist í ræðu Bjarna
Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, flokksins sem ber
ábyrgð á efnahagshruninu. Flokksins sem leiddi ríkisstjórnir fyrir,
í og fyrst eftir hrunið.
Bjarni Benediktsson vill ekki tala um fortíð Sjálfstæðisflokksins.
Hann vill ekki tala um af hverju flokkur hans vildi afnema
"eftirlitsþjóðfélagið", eins og forveri hans kallaði það. Hann vill
ekki segja okkur frá því af hverju framlög til skattaeftirlits voru
skert árum saman á sama tíma og undanskotsleiðum var fjölgað. Hann
vill ekki segja okkur frá samhenginu milli fjárframlaga bankanna
til Sjálfstæðisflokksins með beinum og óbeinum hætti og
hömluleysinu sem fjármálastofnunum var skammtað. Hann segir okkur
ekki af hverju skattkerfinu var breytt hægt og rólega þannig að
kúlulánaprinsar og prinsessur gátu skilið eftir sig hundruð
milljóna skuldir í félögum eftir að hafa skafið eignirnar innanfrá
úr félögunum. Umtalsverður fjöldi sjálfstæðismanna og menn
nátengdir flokknum sleikja nú út um eins og kötturinn yfir
rjómaskálinni. Og svo leyfir formaðurinn Bjarni sér að halda fram
eftirfarandi: "Á Íslandi starfar ríkisstjórn sem gefur enga von."
Hverjar eru vonir Sjálfstæðisflokksins.
Baráttan um Ísland hófst með ræðu Bjarna Benediktssonar, formanns
Sjálfstæðisflokksins, af því þessi "maður ársins 2007" sýndi á sér
óvenju óheiðarlega hlið: "Er þetta að gerast vegna þess að við
höfum ekki virkjað lýðræðið til lausnar á þessum vanda, að við
höfum ekki hleypt nýju fólki, nýjum hugmyndum að á þinginu? Nei,
það getur ekki verið ástæðan því að hér var kosið fyrir rúmu ári
síðan og miklar breytingar urðu á skipan þingsins og ný ríkistjórn
tók við." Þetta sagði Bjarni til að undirstrika enn frekar að
fortíðin væri uppgerð og um hana ætti ekki að tala. Hvenær sagði
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir af sér þingmennsku? Hvenær sagði
Guðlaugur Þór Þórðarson af sér þingmennsku? Hvenær sagði Illugi
Gunnarsson af sér þingmennsku? Hver var að tala um nýtt fólk, nýjar
hugmyndir og nýjar lausnir? Málflutningur af þessu tagi er svo
barnalegur að sautjándi maðurinn í þingflokki sjálfstæðismanna og
sá sem er að reyna að reka sauðina í sama dilkinn, ritstjórinn,
hlýtur að roðna bæði og blána.
Færa má fyrir því rök að VG og Samfylking hefðu átt að láta
Sjálfstæðisflokkinn þrífa upp eftir sig óþrifnaðinn. Þetta kusu
menn að gera ekki því ekkert benti til að flokkurinn hefði til þess
afl og líkur bentu til að hér yrði óbyggilegt fyrir venjulegt fólk
ef Sjálfstæðisflokkurinn yrði ekki hvíldur í tíu til fimmtán ár.
Því hverjar eru vonir Sjálfstæðisflokksins? Er ekki Viðskiptaráðið
farið að álykta eins og hér hafi ekkert orðið hrunið? Eru ekki
Samtök atvinnurekenda á sama róli og 2005 til 2008? Eru ekki Samtök
atvinnulífsins komin í sama gamla vinnugallann frá 2007? Og LÍÚ
þarf ekki að tala um. Eru þetta ekki meginstoðirnar sem
Sjálfstæðisflokkurinn hvílir á nú? Í ályktunum og samþykktum
þessara samtaka felast "vonirnar" sem Sjálfstæðisflokkurinn býður
upp á 2010. Og það er ömurlegt að heildarsamtök erfiðismanna,
Alþýðusamband Íslands, skuli vera svo heillum horfið að ASÍ virðist
vera orðin fimmta stoð falsvona Sjálfstæðisflokksins.
Halda menn að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn til að breyta lánum
almennings afturvirkt til lækkunar þótt Hæstiréttur hafi gert það
upp á við fyrir "fjármálastöðugleikann" sem svo er nefndur án þess
að lögmenn hafi áhyggjur af þessari skattheimtu eftir á?
Halda menn að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn í að taka á
bönkunum?
Halda menn að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn í að gera upp við
hugmyndafræði hinna ríku á kostnað efnaminni sem hagsmunafélög
atvinnurekenda reka nú massívan áróður fyrir?
Af hverju er formaður Sjálfstæðisflokksins ekki spurður um þetta?
Spurður um vonirnar sem hann er tilbúinn að gefa fátæku fólki.
Skýringin gæti verið þessi: Morgunblaðinu stjórnar formaður
Sjálfstæðisflokksins. Fréttablaðinu stjórnar sá sem gekk undir
forsætis- og utanríkisráðherrunum 2002 til 2003. Pólitískur
greinandi Fréttablaðsins er fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og
kynningastjóri íslensku útrásarinn í kóngsins Kaupinhafn. Og
ríkisútvarpið? Það segir bara penar, sléttar, fréttir.
Nú þarft þú að spýta í lófana og fara óhefðbundar leiðir til að
hjálpa þeim sem illa standa. Fella niður skuldir, þjóðnýta allar
íbúðirnar sem standa tómar og búa til búsetakerfi sem tryggir fólki
öruggt húsaskjól sem það vilja og snúa hjólum atvinnulífsins
hraðar. Þetta ætti að vera ykkar fyrsta útspil í baráttunni um
Ísland sem nú er hafin. Ef þið tapið þá hefjast þjóðflutningar frá
Íslandi. Og svo þarf Samfylkingin að leggja frá sér móralinn sem
hún hefur eftir stutta stjórnarsetu með íhaldinu því hún gat ekkert
gert og hafði engin völd til að gera neitt í því kompaníi. Upp út
hjólförunum saman.
Hafsteinn