Fara í efni

LÖG-FRÆÐINGUR EÐA LÝÐ-SKRUMARI?

Þorsteinn Pálsson er sérkennileg blanda af lögfræðingi og lýðskrumara. Þann 17. apríl síðastliðinn ritaði hann grein í Fréttablaðið og tjáði þar m.a. skoðanir sínar á Landsdómi. Ekki er fullkomklega ljóst út frá efni greinarinnar hvort Þorsteinn nálgast málið út frá sjónarhóli lögfræðingsins eða lýðskrumarans. Í fyrstu mætti ætla að lögfræðingurinn hafi yfirhöndina en við nánari skoðun kemur í ljós að lýðskrumarinn er sá sem ræður ferðinni. Í nefndri grein fullyrðir Þorsteinn að Landsdómur komi ekki til greina til að skera úr um meint sakarefni fyrrverandi ráðherra sem sátu í hrunstjórninni. Helstu ástæðu þess segir Þorsteinn byggjast á kröfum Mannréttindasáttmála Evrópu um tvö dómstig. Landsdómur uppfylli ekki þetta skilyrði og komi því ekki til greina. Ekki tilfærir Þorsteinn neina grein í Mannréttindasáttmálanum sem útiloki þetta heldur vísar almennt í sáttmálann. Slíkt verklag vísar fremur til lýðskrumara en lögfræðings. Hins vegar kemur í ljós þegar flett er upp í Mannréttindasáttmála Evrópu, 7. viðauka, 2. gr., að lesa þarf 1. mgr. og 2. mgr. Í samhengi. Almenna reglan undir 1. mgr., 2. gr. mælir fyrir um tvö dómstig, þ.e. rétt til áfrýjunar í dómsmáli. Undir 2. mgr., 2. gr. kemur skýrt fram að undantekningu megi gera á þessu þegar mál er rekið jafnframt á fyrsta og efsta dómstigi. Landsdómur sýnist falla undir þettta og því standast skilyrði Mannréttindasáttmála Evrópu.
Hvers vegna Þorsteinn kaus að vísa ekki í nefndan viðauka og viðeigandi greinar hans er umhugsunarefni. Sú ráðstöfun bendir til að lýðskrumarinn hafi ráðið för þegar greinin var samin. Vandaður lögfræðingur hefði að sjálfsögðu látið það fylgja með til frekari rökstuðnings á hvaða grein sáttmálans væri byggt. Sú spurning vaknar hvort Þorsteinn hafi viljandi látið hjá líðast að vanda til verka. Hafi ekki svo verið er einunigs sá möguleiki eftir að Þorsteinn hafi einfaldlega ekki vitað betur. Það verður þó mjög að draga í efa enda maðurinn löglærður og fyrrverandi dómsmálaráðherra. Gera verður ríkari kröfur til fyrrverandi dómsmálaráðherra en efni nefndrar greinar hans stendur undir.
Þessi vinnubrögð Þorsteins vekja enn fremur upp spurningar um hæfi hans sem nefndarmanns í viðræðum um aðild Íslands að ESB. Öruggt má telja að samningamenn ESB láti hvorki lögfræðinga eða lýðskrumara slá ryki í augu sín í þeim viðræðum enda þótt einhverjum kunni að þykja rykdreifing góð aðferðafræði á Íslandi....
KÁRI