Fara í efni

EIGUM VIÐ AÐ BORGA AFTUR?

Blessaður Ögmundur Jónasson.  
Þau annað hvort skópu hrunið eða aðhyllast hugmyndafræði sem býr til hrun. Þau eru Sjálfstæðisflokkurinn.   Íhaldsáratugirnir einkennust af því, meðal annars, að dytti framkvæmdastjórum VSÍ eða Verzlunarráðsins eitthvað í hug á leið sinni til vinnu, þá var hugdettan orðið að lagafrumvarpi seinna í sömu viku og samþykkt sem lög frá Alþingi á sama þingi.   Íhaldsáratugirnir einkenndust af því að þegar Samtök iðnaðarins, Vinnuveitendasambandið, Verzlunarráðið, Landsamband útvegamanna, heildsalafélagið eða hinn pólitíski armur samtakanna fimm, Sjáfstæðisflokkurinn, komu saman á ráðstefnu, þá urðu niðurstöðurnar undantekningalaust að lagafrumvarpi. Gilti þá einu hvort samþykktir væru skynsamlegar eða arfavitlausar.
Hér liggur veikleiki Sjálfstæðisflokksins sem er að hann er ekki hefðbundinn stjórnmálaflokkur eins og VG, Samfylkingin eða Framsóknarflokkurinn nú til dags.   Nú beita þær sex stofnanir sem hér eru nefndar, og bankarnir, öllu afli sínu til að koma ríkisstjórninni illa og helst frá. Stofnununum er í þessu sambandi ekkert heilagt af því Sjálfstæðisflokkurinn, hin pólitíska samfylking sérhagsmunanna, þrífst á því að fara með, nota eða misnota, ríkisvaldið, eða annað opinbert vald.  
Nú vilja þau lækka skatta, hin hliðin á því er skera meira niður eða fá einkaaðilum opinbera þjónustu sem notendur verða látnir borga upp í topp; gamalt fólk, barnafólk, sjúkir og hrumir.   Þau vilja búa til millifærslukerfi, þar sem fé og fyrirgreiðsla streymir frá fólki til fyrirtækja, útvalinna.  
Þau vilja einkavæða endanlega fiskinn í sjónum í kringum landið og hverfa "frá fyriringarleið".   Þau vilja einangra landið til að geta tryggt fyrirtækjum ótruflaðan aðgang að auðlindum og verkafólki á Íslandi, íslensku eða útlendu.   Þau vilja nota milljarðana sem íslenskt launafólk hefur önglað saman og geymir í lífeyrissjóðum sínum í fyrirtækjarekstur sinn.   Þau beita sér í blogginu.
Þau beita Morgunblaðinu, ÍNN, Fréttablaðinu og öllum örðum fjölmiðlum sem þau ráða yfir í þessari baráttu sinni.   Þau verða að vera í stjórn. Þau verða að ráða VSÍ, ASÍ, Borginni og ríkisstjórn annars veslast þau upp. Þau verða að uppræta eftirlitsstofnanir og draga úr skattaeftirliti svo eitthvað sé nefnt af því frelsi í augum Sjálfstæðisflokksins er hinn óbeislaði athafnamaður. Eftirlit, skattar, regluverk sem tryggja á almannarétt er í þessu sambandi til trafala og "heftir frelsi hins sjálfstæða manns".   Þau eru Sjálfstæðisflokkurinn. Stendur til að hleypa þessu liði aftur inn í Stjórnarráði Ögmundur Jónasson og skapa því aðstæður til að undirbúa annað hrun? Eigum við að borga tvisvar fyrir ábyrgðarleysi Sjálfstæðisflokksins?  
Jóna Guðrún