Fara í efni

HVAÐ VILJIÐ ÞIÐ Í STAÐINN?

Undanfarið hefur átt sér stað mikil og þörf umræða um kröfur Siðmenntar, (mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar) um að ekki eigi sér stað nein trúarleg iðkun í skólum. Ég er ekki viss um að almenningur geri sér grein fyrir því hve Ásatrúin og kristindómurinn eiga sér sterkar rætur í menningararfleið þjóðarinnar.
Sagan okkar sem að við Íslendingar erum svo stolt af og hefur skapað Íslendingum sérstöðu meðal þjóða heims er samfléttuð átrúnaði á æðri mátt, og ég segi að fyrir mitt leyti vil ég ekki hafa það öðruvísi.
Ég hef einsog margir aðrir foreldrar lagt ríka áherslu á það við uppeldi barnanna minna að þau geri sér grein fyrir því láni að vera íslensk, og hef innrætt þeim virðingu fyrir sögu, menningu og bókmenntum þjóðarinnar.
Núna er ljóst að Siðmennt (mannréttindaráð Reykjavíkurborgar) setur það fyrir sig það að sálmar séu sungnir í skólum fyrir jól og krefjast banns á flutningi helgileiksins um fæðingu Jesú í skólum. (minnir mann á Kínverska kommúnismann)
Ef við lítum á þennan meinta sálmasöng sem yrði bannaður í skólum er þar að finna ; Í Betlehem er barn oss fætt, Heims um ból helg eru jól, og Bjart er yfir Betlehem. Í Skólaljóðunum gömlu, góðu er að finna einstakar perlur, sem a.m.k. við fyrstu sýn uppfylla ekki skilyrðin um guðleysi í skólum, Þjóðsöngurinn hlýtur að þurfa að víkja "Ó Guð vors lands...." Lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar, Ísland er land þitt, sem stundum hefur verið nefnt þjóðsöngur númer tvö gengur ekki heldur "Ísland sé falið þér eilífi faðir, Ísland sé frjálst meðan sól gyllir haf" Hver á sér fegra föðurland eftir Huldu. Þar segir "...geym Drottinn, okkar dýra land er duna jarðarstríð " Erla góða Erla, Stefáns frá Hvítadal á vart upp á pallborðið "Dýrðlega þig dreymi og Drottinn blessi þig" Góða tungl eftir Steingrím Thorsteinsson er heldur ekki guðlaust "Og sem vinhýr vörður manna, Vitna þú um drottins ást" Ísland ögrum skorið "fyrir skikkan skaparans; vertu blessað, blessi þig, blessað nafnið hans"
Þetta er ekki tæmandi upptalning, síður en svo. Þessi menningararfur er ómetanlegur, eins og kristnu fræðin. Hvað gæti þá komið í staðinn fyrir þessi ljóð? Súrmjólk í hádeginu og seríos á kvöldin? eða Diggi liggi læ læ, diggi liggi ló? Ef að þetta er stefna V-G mun ég aldrei styðja þenna flokk aftur, en ég hef verið kjósandi V-G undanfarnar alþingis og sveitastjórnarkosningar.
kveðja,
Guðrún Sæmundsdóttir

Sæl og þakka þér fyrir þitt ágæta bréf. Ég sendi þér hér slóð á erindi sem ég flutti um þessi álitamál sem þú hreyfir við : https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/allir-sendibodar-himnarikis-a-fjarlogum
Með kveðju,
Ögmundur