Fara í efni

VERÖLD SEM VAR

Sæll Ögmundur.
Í uppvexti hvers manns þarf hann að skilja og hann þarf að geta lært utanað. Geta skýrt hluti og lýst þeim. Þetta er svona eins og skeggið og hakan, náskylt og hvorugt getur án hins verið. Þetta datt mér í hug eftir að hafa hlustað á fulltrúa fjórflokksins og stjórnmálafræðiprófessor fjalla um þing og þjóð í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Vantraust milli þings og þjóðar sem var útganspunktur fréttamanns.  
Pófessorinn lýsti því sem við öll sjáum, Svavar Gestsson, fyrrverandi sendiherra, sagði að hjarta lýðræðisins væri Alþingið, þ.e.a.s. fundirnir inni, og Rannveig Guðmundsdóttir sagði að kenna mætti andstöðunni í VG um vantraust milli þjóðar og ríkisstjórnar.  
Annar fyrrverandi sendiherra, Þorsteinn Pálsson, lýsti mjög eftir forystusauðum til að leiða lýðinn og sagði samfélagslegan vanda felast meðal annars í að lýðurinn leiddi forystusauðina, að þeirra ósk, og Valgerður Sverrisdóttir kenndi fjölmiðlum um ástandið að hluta til að minnsta kosti.
Stjórnmálafræðiprófessorinn lýsti ástandinu hér eins og ástandinu á Sikiley.  
Eftir sat ég hálf lömuð. Ekki vegna myndarinnar sem upp var dregin því hana sé ég daglega heldur vegna þess á hvaða plani umræðan reyndist vera. Ætli það, hin grunna lýsing þess sem allir sjá, sé nú ekki megin ástæðan fyrir því hvernig komið er, að stjórnmálamenn og fræðingar geta flestir bara lýst umhverfi sínu, og ekki skýrt það sem gerist, og að sá veikleiki íslenskrar umræðuhefðar að vera slungnari í því að éta hver upp eftir öðrum, en að gefa sig frjórri hugsun á vald, sé ein af mörgum skýringum hrunsins. Er það ekki þetta sem lesa má úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis?  
Stjórmálafræðiprófesorinn hefði mátt skýra af hverju orðbragð íslenskra stjórnmála er eins og það er. Fulltrúi Framsóknarflokksins í panelnum hefði má tilfæra dæmi um þátt fjölmiðla í að skapa gjá milli þings og þjóðar. Fulltrúi VG hefði þurft að skilja á milli "hjarta lýðræðisins" og Alþingis götunnar og skýra þessar tvær stofnanir. Rannveigu Samfylkingarkonu þurfti að gefa kost á að skilgreina lýðræðislegan rétt minnihluta í hverju kompaníi og Þorstein Pálsson hefði mátt spyrja um það af hverju hann er svona veikur fyrir hjarðhegðunarmynstri í stjórnmálum og hverju það ætti að skila, hann hefði mátt skýra makalausar flokkspólitískar árásir sínar í Fréttablaðinu, eða hann hefði mátt svara því hvort ýmislegt sem hann hefur látið frá sér fara á sjónvarpsstöðinni ÍNN sé til þess fallið að byggja upp traust í samfélaginu.  
Rannveig Guðmundsdóttir var sú eina í þessum þætti sem mér þótti ná í þann spotta, sem spinna hefði mátt útfrá, en ekki bara setja videóvélina í gang og hespa af einni lýsandi fréttaskýringunni til.  
Samfylkingarkonan skýrði vantraustið milli þings og þjóðar með nákvæmlega réttum hætti að mínum dómi: Hún benti á að almenningur þyrfti enn að horfa í glyrnurnar á þeim sem bera ábyrgð á hruninu á hverjum degi. Hún sagði að gerð væri krafa um að allur almenningur stæði keisaranum skil á því sem keisarans er á sama tíma og tugir eða hundruð milljarða gufuðu upp af skuldum yfirstéttarinnar, eins og af sjálfu sér. Auðvitað er það hið botnlausa óréttlæti sem fram er komið í þessu hruni sem skapað hefur gjá milli þings og þjóðar, á milli almennings og yfirstéttarinnar, og auðvitað gremst þeirri þjóð, sem talin var trú um að hér væri stéttlaust samfélag, að sjá breskt misrétti vaxa hér alskapað fram undir gunnfána norræna velferðarsamfélagsins. Hið stéttskipta samfélag nærir óánægjuna.  
Maður hefði haldið að fólk á fínum eftirlaunum, eins og það sem fram kom í fréttaskýringunni, gæti og vildi skýra, en ekki bara lýsa. Það verður eiginlega að gera þá kröfu ef hleypa á þeim að míkrófónunum. Og stjórnmálafræðiprófessorinn sem líkir Íslandi við glæpafélag þarf auðvitað að svara því, úr því hann líkir okkur við Sikiley, hverjir eru mafían, hverjir spilltu löggurnar og hverjir fátækir bændur, og hvert hlutverk menntamanna er í glæpasamfélaginu.  
Rannsóknarskýrslu Alþingis eiga margir eftir ólesna. Þar er bæði lýst og skýrt og mætti hafa af þeirri aðferð meira gagn, en þeirri veröld sem var í ríkissjónvarpinu, í gærkvöldi, en þá þurfa menn að gefa sér tíma til að lesa og íhuga, nema náttúrulega að í umfjölluninni hafi legið óskin um eina skoðun, einn vilja, einn flokk, og eina lausn á öllum okkar vanda. Það skyldi þó ekki vera?  
kv.    
Ólína

Þakka bréfið Ólína. Já það skyldi ekki vera!
Kv.
Ögmundur