Fara í efni

LEYFI MÉR AÐ EFAST

Lýðræði í sókn-valdakerfi á undanhaldi! Ég vona innilega að þú hafir rétt fyrir þér. Samt leyfi ég mér að efast, vegna þess, að VG, flokkurinn sem vann sinn stærsta kosningasigur, í síðustu þingkosningum, virðist vera og er, alveg eins og allir hinir gömlu klíkuflokkarnir. Alla vega er mikill skortur á lýðræði þar inni, ekkert hlustað á grasrótina í flokknum, eða bara venjulegan flokksmann.Eiginlega skil ég ekki sjálfan mig, hversu blindur ég hef verið í áratugi, sem flokksmaður í VG og áður Alþýðubandalaginu, frá unglingsárum. Sama má segja um ríkisstjórnina. Utanríkisráðherrann, duglegur við að hjálpa klúðurráðherra, fyrrverandi, eins og að mæla með Árna Matthiesen, í góða stöðu ,erlendis, Jón, sjávarútvegsráðherra, útvegar svo syni sínum gott starf. Nei, því miður virðist ekkert vera að breytast á Íslandi, sama valdaklíkan ræður ríkjum í stjórn landsins og að ég tali ekki um stjórnsýsluna, sem öll er og var pólitískt ráðin. Þekking,hæfni, reynsla eða menntun, skiptir engu máli. Og ríkisstjórnin, sem kosin var til að laga til í samfélaginu, gerir ekkert í að breyta til!
Friðjón G.Steinarsson,
flóttamaður í Danmörku.

Þakka bréfið. En rétt skal vera rétt. Sonur Jóns Bjarnasonar, sem er í föstu starfi, var skipaður til að koma að tilteknu verkefni sem fulltrúi eins þeirra sem tilnefna áttu fulltrúa í verkefnið og það var EKKI faðir hans.
Kv.
Ögmundur