Fara í efni

ÖFUGMÆLAVÍSUR Á ATÓMÖLD

Mótsögn nr. 1
Grundvöllur neyðarlaganna var og er að það hafi orðið forsendubrestur. Nú eru í uppsiglingu mikil málaferli vegna neyðarlaganna. Allt tal um "eftirgjöf" og "aðstoð" og "hjálp" við skuldara, í stað þess að taka undir málflutning HH um forsendubrest er vatn á myllu þeirra sem vilja hnekkja neyðarlögunum.

Mótsögn nr. 2
Bankarnir voru á sínum tíma harðlega gagnrýndir fyrir að veita 90% lán til húsnæðiskaupa. Menn töldu það fráleita áhættu. Nú segja menn að það sé ljómandi góð hugmynd að miða við 110% veðsetningu.

Mótsögn nr. 3
Samkomulag það sem ríkisstjórnin gerði við peningavaldið, miðaðist við það að bankar og lífeyrissjóðir lofi að innheimta ekki óinnheimtanlegar skuldir. Síðan er talað um að "kostnaður" við þetta sé um 100 milljarðar.

Mótsögn nr. 4
Ákveðið var að skattgreiðendur niðurgreiði vexti til sjálfra sín.

Mótsögn nr. 5
Aðilar sem komu að samkomulaginu hafa allir sömu hagsmuni. Enginn fulltrúi þeirra sem urðu fyrir forsendubrestinum skrifaði undir samkomulagið.

Hreinn K

Þakka bréfið Hreinn K sem endranær. Tvö örstutt komment: Skattgreiðendum er ekki ætlað að niðurgreiða vaxtabæturnar. Það eiga fjármalástofnanirnar að gera. Útfærslan er hins vegar eftir, inntakið er á sínum stað. Þetta er í mínum huga grundvallaratriði. Ég skrifa ekki upp á að við sem undirrituðum plaggið séum öll hagsmunaaðilar á sveif með fjármagninu. Þar tala ég alla vega fyrir mig sjálfan.
Kv.
Ögmundur