VONA AÐ ÁSTANDIÐ LAGIST
Tek heilshugar undir Pétri (23.12.2010). Er og hef verið
eindreginn stuðningsmaður VG undanfarin ár. Eftir hryðjuverk Lilju
og co. undanfarin misseri þá efast ég stórlega um að flokkurinn sé
atkvæðis virði. Vona þó að þetta ástand lagist. Það er í lagi að
vera með andstæðar skoðanir. Berjast fyrir þeim af hörku innan
flokks og halda sínum sjónarmiðum á lofti. Síðan er haldin
atkvæðagreiðsla eða tilteknum aðilum falið að komast að niðurstöðu,
þá er það niðurstaða sem á að fylgja því að á endanum þá er
stjórnarseta eðli málsins samkvæmt, málamiðlun margra þingmanna og
ólíkra skoðana. Menn eiga að fylkja sér um lýðræðislega niðurstöðu
meirihlutans en ekki vinna gegn henni. Maður er alveg gáttaður
þessa dagana. Það er enginn að taka þessar erfiðu ákvarðanir að
gamni sínu sbr. fjárlagafrumvarpið. Skora því á þig Ögmundur,
reyndu að róa þetta lið. Fólk á frekar að segja, ég vildi fara
aðrar leiðir, sbr. ... en þetta var niðurstaðan, málamiðlun sem ég
styð. Eitt er á hreinu. Ef þessi stjórn springur út af hryðjuverkum
innan VG minnihlutans, þá kýs ég þenna flokk aldrei aftur!!
Kristján
Þú vilt að fólk sætti sig við það sem
meirihlutinn ákveður eða það "sem tilteknum aðilum" er "falið að
komast að niðurstöðu um." Væntanlega áttu hér við Icesave.
Spurningin er þá hversu lýðræðislega hefur verið komist
að niðurstöðu í málum og þá einnig að skjóta málum til
úrlausnar hjá "tilteknum aðilum". Ef svo er ekki er varla
hægt að ætlast til þess að fólk samþykki allt það sem fyrir er
lagt. Átök hafa ekki bara verið um niðurstöður innan VG heldur
hvernig þær niðurstöður hafa orðið til. Hvet til varfærni í
fordæmingum en tek undir með þér um hitt, nefnilega að ástandið
megi batna!
Kv.
Ögmundur