INN UM BAKDYRNAR?

Sæll vertu Ögmundur minn kæri. Undanfarnar vikur hafa heitar umræður og skrif átt sér stað um hin ýmsu málefni sem nú eru þjóðinni aðsteðjandi og eflaust þau flest af toga mikilvægis og þurfandi úrlausna. Þó hefur algerlega gleymst í skammar- og gífuryrðar orðræðunni, að ESB er á leiðinni inn um bakdyrnar á fiskveiðilögsögu okkar beitandi fyrir sig evrópskum fjárfestingarrisa og virðist nú eiga greiðan aðgang með fulltingi og stuðningi Vestiu nokkurrar er hyggst selja þeim Icelandic Group. Vá þessi er ógnarleg í mínum huga og finnst mér að mál þetta beri að skoða þar sem ríkið ætti að eiga greiðan aðgang að ákvarðanaferlum Landsbankans. Eflaust er Jón okkar Bjarnason þegar búinn að ramma þetta mál inn og hnýta þá hnúta sem huga þarf að. Einkennilegt finnst mér það aukinheldur að þjóðinni skuli haldið jafn óupplýstri og raun ber vitni varðandi gang viðræðnanna og enn einkennilegra að samstarfsflokkurinn skuli ekki sjá sér hag í hugmyndafræði þinni um flýtimeðhöndlun aðildarferlisins. Ég er svosem sjálfur ekkert svakalega ánægður með öll gleðitárin og faðmlögin sem virðast hafa sprottið af síðasta samráðsfundi VG og verð ekki sáttur fyrr en þú verður í brúnni takandi ákvarðanir um á hvaða mið skuli siglt. Að lokum legg ég til að samskipti við samstarfsflokkinn verði skert verulega þar sem Mogginn virðist blómstra sem aldrei fyrr í skæruhernaði skeytasendinga flokkanna í gegnum fjölmiðla. Sama hvert við horfum, slíku samstarfi bíða hröð leikslok, hvort sem þingmönnum flokkanna hugnast kosningar eður ei. Kveðja minn kæri. Óskar K Guðmundsson fisksali.

Fréttabréf