Fara í efni

MUNDU MIG - ÉG MAN ÞIG

Ágæti Ögmundur. Ég er sammála Hreini K. og Helga að samráð pólitísku yfirstéttarinnar í Icesave málinu ... frá A til Ö ... er óþolandi, enda and-lýðræðislegt. Af hverju hefur þú Ögmundur, sem málsvari hins opna og virka lýðræðis, ekki forgöngu um að þessu máli verði vísað til þjóðarinnar? Þú ert innanríkisráðherra og þér til upplýsingar, þá verður hér enginn friður nema þjóðin fái að segja sitt ... enn á ný ... þó yfirstéttina dreymi um annað í sandi strútsins handanheima.
Svo vil ég beina allt annars konar spurningu til þín líka: Af hverju koma heil- og hálf-atvinnulausir ekki til greina í alla vinnuhópana og nefndir ríkisins, sem ríkið fjöldaframleiðir nú fyrir stofnanavædda spunatrúðana til bitlinganna, mas. forræðisnefnd fyrir atvinnulausa. Mér blöskrar alveg þessi sjálfhverfa ríkisins, um ríkið, frá ríkinu til ríkisins ... Sem sósjalisti með anarkískum frelsistón, þá býð ég nú fram krafta mína, þó ég hafi aldrei verið kennari við akademískan skóla, en þeim mun meira lært þar, með 2 gráður og endurnýjast nú til heimspekilegra pælinga á rafrænum eternum. Því Ögmundur minn, ekki lifir maður af hálfum bótum, 33.000 kr. eftir skatt og eftir að ég hef greitt tryggingargjaldið upp á 12.000 kr. af hálfu mót-öngli mínu uppá 120.000 kr. Samtals 153.000 kr. eftir skatta og gjöld.
Svei mér þá Ögmundur, þetta er hálfgert neyðaróp frá mér, en kannski er þér bara sama um stolta menn með reisn, sem enn þrauka hérna niðri á jörðinni? Mundu mig Ögmundur minn, því ég man þig eins og stóð í gömlu minningabókunum hér áður fyrr.
Jón Jón Jónsson

Þakka þér bréfið. Í stuttu máli: Mér er ekki sama um stolta menn með reisn og hlusta á þá.
Kv.
Ögmundur