Fara í efni

SPURNINGAR VAKNA UM GÆÐASTJÓRNUN

Ég horfði á Jóhönnu tjá sig um ráðningu á vegum forsætisráðuneytis í 10 fréttum sjónvarps í gærkvöldi. Þar sagði hún frá því að hún hefði hreinan skjöld og samvisku og hún vissi ekki til þess að staðið hefði verið jafnfaglega að ráðningu í forsætisráðuneytinu og einmitt í þessu tilviki. Þessi yfirlýsing var gefin þrátt fyrir að ráðningin sem um var rætt gekk gegn jafnréttislögum. Nú treysti ég mati Jóhönnu á þessu máli fyllilega, enda veit ég ekkert um málið utan þess sem ég las í blöðunum í gær. Sjálfsagt hafa ráðningar í ráðuneytinu í hennar tíð ekki verið jafnfaglegar og þessi.
En þegar þarna var komið fékk ég svona Dejá-Vu tilfinningu. Hafði ég ekki heyrt þetta allt saman áður? Þá fletti ég upp ummælum Jóhönnu þegar Már Guðmundsson var ráðinn í stól seðlabankastjóra. Þá var gefin út yfirlýsing þess efnis að aldrei hefði ráðning í forsætisráðuneytinu verið eins fagleg. Það var þrátt fyrir að seðlabankastjóri vændi Jóhönnu um að hafa hlunnfarið sig og ekki staðið við gerða samninga. Þetta vekur upp ákveðnar spurningar um þetta mikla gæðastarf forsætisráðuneytisins í ráðningum. Að eigin sögn toppa þau sjálfa sig í gæðum trekk í trekk en samt er Jóhanna alltaf í vandræðum. Við verðum bara að vona að þetta sé ekki dæmigert fyrir þær endurbætur sem forsætisráðuneytið stendur fyrir í stjórnsýslunni - að meiri gæði valdi sífellt meiri vandræðum.
Árni V.