Fara í efni

ÞAU SEM SETJA SETJA REGLURNAR...

Sæll Ögmundur.
Ég hef verið á vinnumarkaði í nokkur ár og á þeim tíma tekið fæðingarorlof í tvígang. Ég hef verið á vinnustað þar sem konur jafnt sem karlar olnboga sig áfram og reyna að styrkja stöðu sína eftir megni og nota til þess ýmis ráð. Í slíku umhverfi getur það reynst fólki skeinuhætt að hverfa af vettvangi í nokkra mánuði þrátt fyrir að tilefnið eigi að vera varið af lögbundnum rétti til töku fæðingarorlofs. Þetta atvik sem kom upp í þingflokki ykkar VG-fólks er því ekkert einsdæmi. Þetta er lýsandi fyrir það sem gerist öllum stundum um allt land. "Andi laganna" segir eitt en svo beita allir bolabrögðum til að koma vilja sínum fram og nota ýmsar eftiráskýringar til þess að réttlæta hagsmunapotið.
Í ykkar tilviki kann að vera eitthvað ólíkt að þar er einstaklingur kjörinn til trúnaðarstarfa en algengara er að starfsmenn sinni starfsskyldum á grundvelli ráðningarsamnings. En meginreglan er sú sama. Viljum við byggja samfélag þar sem kalt hagsmunamat kennir fólki að óttast að starfsframanum sé betur borgið með því taka ekki fæðingarorlof eða eiga ekki börn.
Að mínum dómi er það alvarlegasta við þetta mál einmitt það að þeir sem stóðu að því að bola Guðfríði Lilju frá eru þeir sömu og setja samfélaginu reglur og mega vita að allt samfélagið mun horfa til þessa tilviks. Það sem höfðingjarnir hafast að hinir ætla að sér leyfist það. Við megum ekki gleyma því að allt tal um að þetta sé sérstakt tilvik eru sömu rök og notuð eru í hvert sinn sem gengið er á rétt kvenna í svona tilvikum. Það hef ég mátt reyna á eigin skinni. Svo tekur steininn úr þegar þeir eru dregnir til ábyrðgar sem benda á ósómann!
Nú er það þeir sem eiga að bæta fyrir skaðann! Ef vandinn er sá að Guðfríðu Lilju vanti vegtyllu getir þú leyst það mál með því að gefa henni eftir þitt starf!! Það var ein af talskonum feminista sem sagði þetta, Sóley Tómasdóttir.  Ég vil spyrja fólk sem heldur þessu fram hvort það telji beri vott um stjórnvisku og geti verið gott fordæmi? Ef við yfirfærum þetta sjónarmið á umhverfismál (þar sem þið eruð græningjaflokkur) og tökum dæmi byggt á atburðum sem eru ekki mjög langsóttir: Væri það til eftirbreytni að gera þá kröfu til þeirra sem vilja draga úr mengun frá sorpbrennslustöðvum í grennd við leikskóla að þeir kosti sjálfir til mengunarvarna en draga þá að öðrum kosti til ábyrgðar fyrir menguninni? Eru svona pólitísk umræða ekki einmitt ástæðan fyrir því að fólk er orðið afhuga pólitík í stórum stíl?
Elsa