Fara í efni

UM SÍMHLERANIR

Sæll Ögmundur.
Í fyrrakvöld horfði ég á mjög svo athyglisvert viðtal í Sjónvarpinu við forstöðumann greiningardeildar Ríkislögreglustjóra. Þar fjallaði hann m.a. um hinar svonefndu forvirku rannsóknarheimildir sem embættið hefur að undanförnu lagt mikla áherslu á að fá. Í viðtalinu var hins vegar lítið fjallað um hvaða takmarkanir yrðu á notkun þessar heimilda, einna helst skildist mér á forstöðumanninum að það yrði hlutverk þeirra dómstóla sem veittu rannsóknarheimildirnar hverju sinni að meta nauðsyn þeirra og hafa þannig eftirlit með notkun þeirra. Saga símhlerana hér á landi sýnir okkur hins vegar að slíkt eftirlit er engan veginn nóg því hér áður fyrr voru dómstólarnir nánast eins og afgreiðslustofnanir fyrir dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hvað þetta varðaði og því miður hef ég litla trú á að það hafi breyst.
Nú eftast ég ekki um að á næstu misserum verða þessar heimildir fyrst og fremst notaðar til að fylgjast með glæpagengjum en menn þurfa að vera illa haldnir af sjálfsblekkingu til að gera sér ekki grein fyrir því að í framtíðinni verða þær einkum notaðar til að fylgjast með hópum sem borgaraleg öfl telja ógna hagsmunum sínum með einhverjum hætti, að minnsta kosti ef Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur komast aftur til valda. Því langar mig til að spyrja þig hvaða aðrar ráðstafanir verða gerðar til að hafa eftirlit með notkun þessara heimilda? Það væri óneitanlega kaldhæðnislegt ef þær forvirkurannsóknarheimildir sem þú fékkst samþykktar á þingi yrðu innan fárra ára mest notaðar til að hafa eftirlit með þér og félögum þínum í Vinstrigrænum. Bestu kveðja,
Guðmundur J. Guðmundsson,
Miklabraut 34 Reykjavík

Heill og sæll og þakka þér bréfið. Vangaveltur þínar og varnaðarorð eru vissulega þess efnis að taka mjög alvarlega. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að fyrirhugað frumvarp mitt er ekki fram komið á Alþingi enn hvað þá samþykkt. Það er enn í vinnslu. Ég hygg að þegar upp verður staðið verði eftirlit með þessum málum í traustari farvegi en verið hefur og skýrari línur á milli andófs af pólitískum toga annars vegar og skipulagðrar glæpastarfsemi hins vegar. Þetta er markmið mitt og sýnist mér að okkar skoðanir fari þarna mjög saman.
Þá vek ég athygli á að vangaveltur forstöðumanns greiningardeildar Ríkislögreglustjóra voru einnig mjög í þá veru að kalla eftir ströngu aðhaldi og eftirliti.
Kv.
Ögmundur