Fara í efni

GAMLAR GLÆÐUR

Sæll Ögmundur.
Ákæran er pólitísk, það er rétt.  Það var Alþingi sem samþykkti að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra. Réttarhöldin sjálf eru hins vegar ekki pólitísk. Réttarhöldin eru í samræmi við lög. Skiptir í þessu sambandi engu þótt saksóknari  væri sjálfstæðismaður og verjandinn vinstri grænn. Að tala um pólitísk réttarhöld er skot yfir markið. Önnur spyrna fór líka langt yfir. Það var þegar fyrrverandi forsætisráðherra kenndi ykkur um ákæruna, þér, fjármálaráðherra og óháðum þingmanni af Suðurlandi. Þetta feilskot var óskiljanlegt í gær, en skýrðist nokkuð í dag, þegar Ingibjargararmur Samfylkingarinnar sté sameinaður fram fyrsta sinni í langan tíma. Þetta gerðist á stuðningsmannafundi fyrrverandi forsætisráðherra. Ég sá ekki betur en að þarna sameinuðust samfylkingar- og sjálfstæðismenn þeir sem voru pólitískir gerendur vorið 2007, þegar komið var á stjórn flokkanna tveggja með kossum og kjassi,  eins og í dag. Þá vakti athygli hve mjög  Ingibjargararmurinn lagði sig fram um að ráðast á VG fólk þegar færi gafst. Þetta kom einnig skýrt fram þegar þessi armur Samfylkingarinnar var sviptur völdum í janúar 2009. Það kom í ljós í dag að lengi lifir í gömlum glæðum.
Kveðja,
Ólína