Fara í efni

MIGIÐ Í SALTAN SJÓ

Sæll Ögmundur.
Seinheppnir útvegsmenn. Nú hræða þeir landslýð með því að 260 manns í  nokkrum verstöðvum muni missa vinnuna þegar áhrif kvótafrumvarpa ríkisstjórnarinnar eru fram komin. En hver hafa áhrif núverandi kvótakerfis verið? Förum vestur á firði. Við byrjum á Patreksfirði, förum á Tálknafjörð og svo á Bíldudal. Flytjum okkur yfir á Þingeyri 
og Flateyri. Núverandi kvótakerfið hefur tekið sinn toll af þessum byggðum. Sama er upp á teningnum við Djúp. Í Bolungarvík, í Hnífsdal, á Ísafirði og í Súðavík hafa áhrif núverandi kvótakerfis verið hrikaleg síðustu árin. Kvótatilfærsla frá Vestfjörðum hefur að vísu skilið eftir nokkra milljarða í höndum einkaaðila sem hafa braskað með  þá, eða sett á bók. 1100 til 2000 störf hafa hins vegar glatast í sjávarútvegi og fiskvinnslu í þessum fámenna landsfjórðungi fyrir utan annars konar áhrif á atvinnu- og mannlíf.
Útvegsmenn, sem nú hafa áhyggjur af verkafólki í nokkrum verstöðvum, hafa hingað til ekki haft miklar áhyggjur af verkafólki á og frá Vestfjörðum. Útvegsmönnum er ýmislegt betur gefið en að stunda hræðsluáróður. Það sýnir þetta nýjasta útspil þeirra. Eða eru það ungmennin á auglýsingastofunni sem þeir skipta við sem hafa misreiknað sig svona herfilega? Áróðurinn um 260 störfin kemur eins og bjúgverpill í hnakka þess sem hefur hann uppi. Þeir sem skipulögðu útspil þetta á sjálfan uppstigningarfréttadaginn hafa greinileg aldrei migið í saltan sjó. 
Gott að hafa nú forsætisráðherra sem tekið hefur á sérhagsmunaliði útvegsmanna.
kveðja,
Ólína


...Já og þá ekki síður sjávarútvegsráðherra sem hefur sýnt jákvæðan vilja í verki öllumöðrum fremur. Gott að heyra frá þér aftur Ólína. Var farinn að sakna skrifa þinna hér á síðunni.
Kv.
Ögmundur