Fara í efni

DYLGJUR?

Sæll Ögmundur.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir um embætti Ríkislögreglustjóra: "Að mati Ríkisendurskoðunar fór hluti þessara viðskipta í bága við lög um opinber innkaup." Þú getur verið ósammála þessu, en mér finnst sérkennilegt að sagt er á síðu ráðuneytisins: "Sú mynd sem dregin hefur verið upp í fjölmiðlum af embættinu er ómakleg og röng." Hverju hefur verið haldið fram öðru en því að embættið hafi brotið lög, skv. mati Ríkisendurskoðunar, og um hvað þau mál snúist? Hafirðu einhver önnur rök fyrir staðhæfingum þínum ættirðu að skýra frá þeim. Það hefðirðu átt að gera strax, því það er alvarlegt mál að ráðherra dylgi um rangfærslur fjölmiðla. Það er líka grafalvarlegt mál ef ríkislögreglustjóri fer ekki að lögum, og það er ekki nóg að ráðuneytið haldi fram á heimasíðu sinni að þetta sé rangt hjá Ríkisendurskoðun án þess að rökstyðja það nákvæmlega. Það er ljóst um hvaða ákvæði laga þetta snýst, en þú hefur með engum hætti útskýrt af hverju þú telur að Ríkisendurskoðun hafi rangt fyrir sér. Þetta er vond stjórnsýsla, sem eflir þann grun að þú og félagar þínir í ríkisstjórn hafið engan áhuga á að taka til í því spillta valdakerfi sem hér ríkir.
Kveðja,
Einar

Það er rangt hjá þér að ég vilji ekki taka á óheiðarleika og spillingu. Ég er líka áhugamaður um að setja öll mál í rétt og sanngjarnt samhengi. Það finnst mér ekki hafa verið gert í þessu máli. Eftir yfirferð yfir málatilbúnaðinn var það mat mitt að embætti ríkislögreglustjóra hefði ekki brotið lög og að þetta mál hefði verið tekið út úr  réttu samhengi. Lög um útboð eru til að tryggja hagsmuni skattborgarans og að ekki fari fram óheiðarleg viðskipti. Þessu var ekki til að dreifa. Karpað um túlkun á útboðslögum og hugsanlegu broti þar - sem ég tel ekki hafa verið  verið framið - og því jafnað á við stórglæp. Þetta finnst mér ósanngjörn framsetning og þegar það er sagt eru það engar dylgjur heldur sjónarmið og skoðun.
Kv.,
Ögmundur