HÖGGVIÐ Í SAMA KNÉRUNN

Sæll Ögmundur.
Nér finnst eitthvað meira en lítið galið þetta með slátrunarfæriband ríkisvaldsins, því það virðist komið á sjálfstýringu einhverra illa forritaðra vélmenna. Þeirri skoðun minni gæti ég nefnt mörg dæmi, en eitt það svaðalegasta er þó, að á sama tíma og á að fara í að byggja hátæknisjúkrahús við Hringbrautina fyrir amk. 50.000 milljónir, þá er enn og aftur höggvið í sama knérunn úti á landsbyggðinni og td. heilbrigðisstofnuninni á Húsavík gert að skera blóðugt inn að beini, því með því sparast 65 milljónir. Og á sama tíma á einnig að loka líknardeild aldraðra á Landakoti, því þannig sparast 50 milljónir. Þar með nær held ég illska þessa slátrunarfæribands út fyrir endimörk lífs og dauða. Ég ítreka, á sama tíma á að víbra niður galtóma steypu fyrir 50.000 milljónir við Hringbrautina.
Hverjir forrita eiginlega þetta snarklikkaða slátrunarfæriband ríkisvaldsins? Getur það verið að Yfir-bankasýsla heimsins, AGS hafi komið þar að málum? Sé svo, hver er þá sláturhúss-stjórinn hér innanlands? Er það ekki fjármálaráðherrann, hinn staðfasti lærisveinn AGS og sjálfur ESB dindillinn, Steingrímur J. Sigfússon? Veit hann ekki að það er hægt að setja upp alls kyns formúlur á excelnum? Er hann kannski orðinn eitthvað bilaður eins og illa forritað vélmenni? Mér sýnist alla vega vera fyrir löngu kominn tími á hann og eina vitið að skipta honum út. Mér sýnist reyndar, að það sé kominn tími til að þú takir við formennsku VG í stað Steingríms, því hann hefur alveg tapað móvitinu og dettur nú um hverja þúfuna á fætur annarri.
Litla þúfa

Fréttabréf