Fara í efni

SÉÐ HEF ÉG KÖTTINN SYNGJA Á BÓK

Einkennileg eru tíðindin um að spara þurfi burt spítalabedda fyrir dauðvona fólk og spara ráðrúm fyrir þá veiku, sem von eiga enn um heilsubót. Skrýtið er að tæki og tól  séu  óendurnýjuð  eða hliðarsett vegna viðhaldsbrests og stöndug spítalahús vanrækt skipulega.
Þverstæðan liggur í að þetta gerist í samfélagi, sem enga milljarða skal spara til viðhalds á hálfbrotnum eða albrotnum froðu-  og bólufyrirbrigðum, íslenskum stórverktökum, sem margir eru raunar þegar  í erlenda eigu komnir eða á aðra vonarvöl. Flestir eiga þeir sér sögu sem  hrunkvöðlar.
Eitt líknarviðbragð  ríkisins gagnvart slíkum er einmitt áætlað bindingarframlag til kassasmíða við Hringbraut, útleiguhýsa í einkaeign til leigu- afnota  fyrir LHS á ómögulegum stað.   
Sagt er að því meiri sem umbunargreiðslur til  stórverktaka verði, því meira muni sparast í spítalarekstri, því betur aukist þjóðarheilbrigðið. Alltaf má líka taka tól á leigu og kalla eftir brottreknum heilbrigðsstarfsmönnum. Þeir finnast  þá vonandi, enda enginn spítali rekinn af dauðum sálum. Þegar er til nóg af tómum rúmum í leigukassann, í Reykjavík og þá ekki síður á landsbyggðinni. Því meiri sem  srórverktakaumbun til Hörpu reiknast því betur vex tónlistarmenning á Íslandi og er þá enn á ferð skemmtilegur öfugmælahúmor.
Ástarsamband íslenskra stjórnvalda við valin stórverktakafyrirtæki er annálað. Eitt þeirra, Marti, er svissneskt að þjóðerni og hefur draugshund í bandi sínu, af íslensku hermangskyni, snatann IAV. Marti  er nú að ljúka við Hörpusmíði, sem hrökk 150% fram úr kostnaði, smíðatöfin tvö ár. Marti gerði gat á Óshlíð og var þar bætt 90% við verðáætlun.   Nú býðst Marti enn til verka við Vaðlaheiðargat og enn fagna örlát íslensk stjórnvöld. Startboð Martis er 8.9 ma kr. Miðað við Óshlíðarstílinn vex verðið í 16.7 ma kr. Miðað við Hörpustíl  í yfir 22 milljarða kr. Varla bregður ríkið af örlætishefð sinni til verktaka. ( Héðinsfjarðarstíll mundi skapa  17.8 ma kr. umbun)   Tónlistarmenning vex af srórverktakaörlæti ríkisins, sem alkunna ætti að vera, eftir þrásagnir um það. Heilbrigði er best tryggt með verktakaást ríkisins. Umferðamenning er háð sama lögmáli, því meira stórverktakaörlæti ríkisins, því meiri verður verktakahamingjan og ferðahamingja fólkisins á rætur í henni. Marti og hundur Martis eru nú áberandi gagnaðili ríkisins í mikilvægu ástarbralli við Eyjafjörð, sem þjóðin  öll ætti að fylgjast áfram með, í komandi skammdegisdeyfð.  
Því heimskulegar sem stórvirkjastefnan hljóðar og því meiri sem skuldbindingarbaggi ríkisins vex, því betur verður velferð þjóðarinnar tryggð. Þetta er öfugspekin. Enn ein öfugspekin er teboðsrugl um ,,einkaframkvæmd á almannaábyrgð".  Þá er byggt á að hreint samtak fólks sé af hinu illa, einkaframtakið skuli efla- með þeim fyrirvara að bregðist ágóðinn, fái almenningur tapreikninginn. Teboðsruglinu fylgir að efla skuli beina gjaldskyldu fólks, þ.e. fyrir spítaladvöl, skólamenntun, notkun á almannavegum o.s.frv.   Því fylgir  líka að efla skuli almannastuðning við gróðaöfl þegar illa árar í þeirra ranni í samræmi við pilsfaldaregluna. Stóverktakaást ríkisins hefur fæðst í teboðum. Sú ástleitni á  sér margar aðrar hliðstæður, t.d. dekur við bankavaldið í einkastýringu, sem íslenska ríkið ætlar sér enn að efla, aftur og nýbúið.                                                                                                                                                        Baldur Andrésson