Fara í efni

FÖRUM VARLEGA

Sæll Ögmundur.
Ég skrifaði þér fyrir margt löngu síðan þegar þú sagðir af þér ráðherradómi vegna skoðana þinna á þeim tíma. Nú finnst mér aftur tilefni til að rita bréf þar sem ákvörðun þín eða þinna starfsmanna um umsókn kínverjans vegna þessara umdeildu viðskipta með landsvæði til útivistar o.fl. var synjað. Ekki ætla ég að leggja mat á hvort þú hefur rétt fyrir þér eða aðrir sem tjáð sig hafa um þetta mál, en mig langar til að segja frá því sem upplifði í ferð minn til Cabo Verde, öðru nafni, Grænhöfðaeyjar, fyrr á þessu ári.
Capo Verde er eins og flestir vita gömul nýlenda frá Portugal og lutu þeirra stjórn. Við vorum svo lánsöm að fræðast um sögu eyjanna og fengum mjög góða og hlutlausa, að ég tel, fræðslu um sjálfstæðisbaráttu innfæddra. Oftar en ekki komu kínverjar til sögu þegar málefni um framtíð eyjanna bar á góma. Um leið og innfæddir elskuðu veru þeirra á eyjunum, vegna þess að þeir fluttu inn ódýrt drasl, þá bar við ótta við þau umsvif sem þeir ætluðu sér í uppbyggingu til framtíðar.
Á Grænhöfðaeyjum gilda þau lög að þeir sem koma með viðskiptahugmynd fá 5 ára skattafríðindi. Sem dæmi, Cong stofnar verslun, eftir fimm ár hættir Cong með sína verslun, Cing, bróðir Cong opnar verslun og rekur í fimm ár og Ping sonur Cong opnar með stæl.Það virðist vera svo að alltaf finna manneskjur leið frmhjá reglum.
Kínverskir fjárfestar festu kaup á lítilli eyju sem nota átti til spilavítis o.fl. Núverandi stjórnvöld berjast gegn slíkri þróun eftir því sem mér skilst. Þess má geta að glæpir, eiturlyf og vændi þrífast ekki í þessari paradís ennþá þrátt fyrir gríðarlega eftirspurn ferðamanna. Capo Verde er og verður einn mest sótti ferðamannastaður í framtíðinni, veðursældin og viðmót innbyggja munu laða að ferðamenn og til framtíðar þarf ekki kínverska fjárfesta til starfsins. Með þessum orðum er ég alls ekki að segja að okkar yndislega viðmót muni draga að ferðamenn, feitir og úrillir Íslendingar munu eflaust hafa sitt aðdráttarafl en þegar upp er staðið mun náttúra íslands hafa vinninginn.
Ég vil segja, okkur vantar illilega meiri fjárfestingu til landsins, verum samt róleg og yfirveguð í ákvörðunum um viðkvæm mál sem varða okkur til framtíðar. Ögmundur,ég er á báðum áttum. Ég held samt að rétt sé að fara varlega. Ef Nupo vill virkilega gera það sem áform hans gefa til kynna þá mun hann sýna þolinmæði og leita allra annara leiða, og að lokum ná sínu fram. Hvað sem því líður, þá stóðst þú við þína ákvörðun, eins og áður, það er málið.
Þorsteinn Pálmarsson