Fara í efni

FRAMTÍÐARSÝN

Nokkuð er um það að fólk álíka öfgafullt og ég sendi Ögmundi póst vegna Grímsstaða á Fjöllum. Okkur skortir tilfinnanlega framtíðarsýn og skiljum trauðla hvað það þýðir að vera hluti af frjálsu alþjóðlegu hagkerfi. Við leyfum okkur meira að segja að gera upp á milli fjárfestingakosta sem er auðvitað firra.
Hvort útlendingur fjárfestir í atvinnulífi hérlendis eða kaupir jörð sem er stærri en höfuðborgarsvæðið á einn milljarð er auðvitað aukaatriði. Og hver ætti svo sem að hafa áhyggjur af því að ógerningur er að greina hvort hér sé um einstakling að ræða eða fjölmennasta ríki heims að fara ránshendi um okkar dýru djásn. Þetta er bara bissniss. Þetta uppgötvaði ég á sunnudaginn í Silfri Egils. Hvað það getur verið frelsandi að hlusta á háskólamenn með skýra sýn. Hugsið ykkur hvað við fengjum fyrir Ísland allt með álíka verðlagningu, heila 300 milljarða. Og hvað er það mikið á mann? Afsakið en nú finn ég að öfgarnir sækja á mig aftur.
Er það boðleg röksemdafærsla að þar sem einstaklingar á evrópska efnahagssvæðinu geti keypt upp lendur í einkaeigu hérlendis sé sjálfsagt að veita undanþágu í þessu máli? Til hvers höfum við lagaramma og til hvers gerum við samninga við önnur ríki, nema til að þjóna hagsmunum þeirra sem búa í þessu landi. Ef regluverkið þjónar ekki hagsmunum þjóðar þarf að breyta því, en ekki nota það sem skálkaskjól fyrir óþjóðholla gerninga. Hvað er meiri hrollvekja en tilhugsunin um að einfeldni og græðgi selji landið undan komandi kynslóðum?
Sigurjón Mýrdal