Fara í efni

HVAR VARST ÞÚ ÞEGAR MAKKAÐ VAR UM ESB?

Heill og sæll Ögmundur.
Hvar varst þú minn kæri bróðir þegar makkað var á bakvið tjöldin fyrir kosningarnar 25. apríl 2009? Tilefni þess að ég spyr þig er frétt á dv.is, þar sem eftirfarandi er haft eftir Atla Gíslasyni: "„Ég hef nú sannreynt að fyrir kosningarnar vorið 2009 hafi verið ákveðið í þröngum hópi forystu VG og Samfylkingarinnar, næðu flokkarnir þingmeirihluta, að sækja um aðild að ESB og samþykkja Icesave, skilgetið afkvæmi ESB-umsóknarinnar. Sannleikanum var haldið frá mér og ótal fleirum í aðdraganda kosninganna. Ég var afvegaleiddur og afvegaleiddi kjósendur í Suðurkjördæmi. Ég harma það og biðst afsökunar. Umsóknin er í fullum gangi með tilheyrandi aðlögun að regluverki ESB og IPA-aðlögunarstyrkjum þvert á samþykktir flokksfunda," segir Atli og nefnir fleiri mál sem hann er ósáttur við; niðurskurðinn, Magma-málið og skuldavanda heimilanna sem dæmi.
Nú er það einlæg spurning mín til þín Ögmundur: Varst þú í þessum "þrönga hópi forustu VG" sem makkaði á bakvið tjöldin fyrir kosningar, en sögðu svo annað við kjósendur og töluðu þar með tungum tveimur og hafa síðan aktað í svipuðum stíl? Mér þætti vænt um hreinskilið svar frá þér Ögmundur og veit að það gildir um fleiri. Er ekki kominn tími til að segja alla söguna vafningalaust? Var ekki talað um gegnsæi og heiðarleika fyrir kosningar? Að maður tali nú ekki um "norrænu velferðina" og "skjaldborgina" ... um hverja?
Með kveðju,
Jón Jón Jónsson

Ekki kannast ég við neitt slíkt samkomulag í aðdraganda myndunar minnihlutastjórnarinnar í febrúar 2009. Á þessum tíma tel ég mig þó hafa vitað flest sem fór fram á milli flokkanna tveggja. Ekki kannast ég heldur við neitt slíkt samkomulag fyrir kosningarnar um vorið sama ár. Um þetta hef ég oft skrifað opinberlega, t.d. í Morgunblaðsgrein 13. nóvember 2010. Þar sagði ég m.a.:
"...Enda þótt ég gefi lítið fyrir samningaviðræður við ESB verð ég þó sem áður segir að beygja mig fyrir því að þar eru margir mér ósammála og vilja umfram allt láta reyna á slíkar viðræður. Haustið 2008, löngu fyrir síðustu alþingiskosningar, lýsti ég því yfir að ég væri fyrir mitt leyti tilbúinn að styðja að slíkar viðræður færu fram við ESB og að samningsdrög yrðu síðan borin undir þjóðaratkvæðisgreiðslu. Hér var einfaldlega um það að ræða að virða óskir fólks um málsmeðferð. Hver svo sem nálgunin yrði þá væri endanlegt ákvörðunarvald á hendi þjóðarinnar. Það er hin lýðræðislega hugsun sem allt annað hvílir á. Þessa lýðræðislegu hugsun skilja allir sem vilja skilja.

Það varð síðan ofan á hjá okkur í VG í stjórnarmyndunarviðræðunum 2009 að freista þess að tala Samfylkinguna inn á að láta fara fram tvöfalda kosningu: Spyrja fyrst þjóðina hvort hún vildi sækja um og síðan aftur að loknum viðræðum ef það á annað borð hefði orðið ofan á að senda inn umsókn. Fyrir þessu talaði VG í aðdraganda stjórnarmyndunar.

Þessi nálgun hefði að sjálfsögðu verið rökréttasta og lýðræðislegasta nálgunin. En á þetta vildi Samfylkingin ekki fyrir nokkurn mun fallast og fór sem fór. Meirihluti Alþingis samþykkti að ganga til viðræðna við ESB - og leggja að þeim viðræðum loknum niðurstöðuna fyrir þjóðina til úrskurðar.

Líður nú tíminn. Viðræður hefjast með endalausum rýnihópum og kröfum um að við gerum eitt og síðan annað. Farið er að bera á okkur fé undir því yfirskini að þetta sé til að auðvelda gangverk samfélagsins og gera það skilvirkara og kröftugra. Það eigi að búa okkur sem best undir brúðkaupið; að við verðum fullstöðluð frammi fyrir altarinu þegar stóra stundin rennur upp...."

Einnig hefur komið fram opinberlega af minni hálfu að umsóknarferlið hafi reynst miklu djúptækara en ég hafði gert mér grein fyrir og hef ég margoft hreyft  þeirri hugmynd að flýta viðræðum og fá fram efnislega niðurstöðu í þeim málum sem vitað væri að mestur ágreiningur væri um. Þetta orða ég m.a. í umræddir Morgunblaðsgein sem er hér: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/matardiskur-og-flugmidi
Ögmundur