Fara í efni

UM FURÐULEG BRÉF OG EIGNARHALD BANKA

Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans vék lítillega að eignarhaldi banka í ræðu sinni á aðalfundi LÍÚ nú á haustdögum. Fram kom hjá bankastjóranum sú skoðun að meirihlutaeignarhald ríkisins í bankanum væri óeðliegt og að hann vissi ekki hvenær hann gæti fengið furðuleg bréf frá stjórnmálamönnum þar sem þeir væru með afskipti af stjórn bankans.

Landsbankinn hefur nú frá haustdögum 2008 verið í meirihlutaeigu ríkissjóðs. Opin og frjáls umræða um eignarhald á fyrirtækjum er mikilvæg í okkar samfélagi en óneitanlega samrýmast kveðjur bankastjórans til eigenda fyrirtækisins illa þeim skyldum og venjum sem stjórnendur hlutafélaga og fyrirtækja telja sig almennt setta undir. Steinþór Pálsson er ekki frekar en aðrir starfsmenn fyrirtækja hafinn yfir það að sýna vinnuveitendum sínum lágmarks sanngirni og hollustu í starfi.

Sú skoðun að ekki sé farsælt að ríkið eigi banka á fullan rétt á sér en óneitanlega eru rökin fyrir henni til muna veikari en var fyrir nokkrum árum. Sé litið til sögunnar þá hefur einkaeignarhald á bönkum á Íslandi ekki verið farsælt, hvort sem aðeins er litið til síðustu 10 ára eða horft aftar til sögu gamla Íslandsbanka, Útvegsbankans og fleiri einkabanka á 20. öldinni.

Það er rétt hjá bankastjóra Landsbankans að víst getur til þess komið að einstakir stjórnmálamenn komi fram með "furðuleg bréf" eða óheppileg afskipti af bankastarfssemi í eigu ríkisins. En það fer ekki milli mála að enn furðulegri tilskipanir fengu bankastjórar einkabankanna frá eigendum sínum á árunum fyrir hrun. Munurinn á þessum afskiptum eru þau að afskipti stjórnmálamanna eru oftast og eiga enda alltaf að vera uppi á borðinu og sýnileg almenningi. Afskipti einkaaðila af bönkum sem þeir höfðu komið höndum yfir urðu okkur ekki ljós fyrr en um seinan.

Kristinn