Fara í efni

Á KOSTNAÐ RÍKISINS

Sæll Ögmundur, nú get ég ekki orða bundist.
Sú spurning verður æ áleitnari hvað er að gerast hjá þeim sem starfa í eftirlitsiðnaðinum á Íslandi. Lagaumhverfið er klárt en framkvæmdin ótrúleg. Það sýna nýju dæmin.
 Hver borgar fyrir sleifarlag Fjármálaeftirlitsins síðustu tíu árin? Hvernig má skýra slappleikann?
 Hver ber ábyrgð á slappleika Matvælastofnunar og hræðslu við að setja áburðardeild Skeljungs stólinn fyrir dyrnar? Hvað skýrir framtaksleysið og leyndina?
 Hvernig stendur á því að Umhverfisstofnun lét sorpbrennslustöðvar menga og ausa skaðlegum efnum yfir fólk á tilteknum stöðum á landinu?
 Og hver ætlar að bera ábyrgð á innvortis mengun kvenna vegna lekrar brjóstapúða? Er það einkalæknirinn? Er það sá sem flutti púðana inn og hvernig á að bregðast við?
Fyrst sagði landlæknir að þetta mál heyrði alls ekki undir hann heldur Lyfjastofnun þetta væru jú lækningatæki (heilsufar sjúklinganna kemur landlækni greinilega ekki við þegar lækningatækin klikka). Lyfjastofnun gat sáralitlu svarað, hafði takmarkaðar upplýsingar og velferðaráðuneytið? Málið var ekki komið inn á þeirra borð.
Allir snéru þeir sér í hringi. Eftir einn eða tvo hringi hvöttu allar þessar stofnanir konurnar til að hafa samband við sérfræðingana sem gerðu skurðaðgerðina á konunum! Þetta var sem sé einkamál kvennanna. Eftirlit og ábyrgð í skötulíki enn einn ganginn. Kannske af því þetta voru konur með fyllingar í brjósti.
Og hvað segir svo velferðarráðherrann blessaður: Málið er í vinnslu í ráðuneytinu, ríkið mun kosta skoðun á konunum (væntanlega hjá sama lækningum sem flutti inn púðana og setti þá upp gegn greiðslu?), og það gæti verið að ríkið myndi kosta bottnám púðanna!!
 Hefur velferðarráðherra og velferðarráðuneytið ekki heyrt af lögum nr. 111/2000 frá 25. maí um sjúklingatryggingu?
 Hefur ráðuneyti og ráðherra ekki heyrt um lögin um réttindi sjúklinga?
 Er ekki kominn tími til að heilbrigðisnefnd Alþingis komi saman og taki nokkra menn á beinið?
 Hafa viðkomandi ráðherrar ekki áttað sig á hver ber endanlega ábyrgð á framkvæmdavaldsstofnununum sem hér um ræðir?
 Ég hlýt að spyrja mig: Hver er eðlismunurinn á sakargiftum sem bornar eru á Geir Haarde og þá almennu stjórnsýslu sem hér er gerð að umtalsefni? Enginn að mínu viti; þetta er náttúrulega ekki í lagi! Og allt á kostnað ríkisins.
 Kveðjur
 Jóna Guðrún