Fara í efni

ANDA LÉTTAR

Sæll Ögmundur ... mikið er mér létt, að fyrsta frétt af hrunauppgjörsmálum á RÚV var röng; ekki í fyrsta skipti að sú stofnun bregst. Héðan í frá treysti ég frekar athugasemdum frá þeirri merku konu, Örnu Mosdal en fréttastofu RÚV. Ég er sammála ummælum hennar á fésbók um málið: "Uppgjör við Hrunið getur aldrei falist í því að hengja Geir H. Haarde upp á snaga. Það vita allir sem vilja vita. En Íslendingar eru sérlega iðnir við að gleyma sér í tittlingaskít. Uppgjörið átti ma. að koma fram í breyttum vinnubrögðum á Alþingi, í stjórnsýslunni og í Stjórnarráðinu. Í Rannsóknarskýrslu Alþingis var bent á allar brotalamirnar. Man enginn eftir því lengur? Og hefur eitthvað breyst? Það held ég ekki. Besta dæmið þar um er foringjaræðið og hjarðhegðunin sem enn er krafist af þingmönnum. Svo er það náttúrulega sorgarsaga hvernig fyrstu vinstristjórninni hefur tekist að spila úr málum eftir þriggja ára valdatíma og kenni ég þar forystumönnum ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst um. Steingrímur og Jóhanna eyddu óheyrilegum tíma og orku í að semja af sér í Icesavemálinu. Steingrímur endurreisti bankakerfið að smekk ríkjandi stétta en hefur aldrei eytt einu orði að skuldavanda heimilanna í landinu og þannig mætti áfram telja. Samfelld sorgarsaga fyrir normal kjósendur VG." Arna Mosdal talar hér enga tæpitungu. Sú kona er mér mjög að skapi og vonandi þínu líka Ögmundur. Hlustaðu eftir orðum hennar Ögmundur. Er hún ekki að segja að þú eigir að láta AGS og ESB hjú erlendra vogunarsjóða og hrægamma, Steingrím og Jóhönnu, barasta fara í rass og rófu?
Jón Jón Jónsson