MEST ÚR EIGIN LIÐI?

Nú er mikið gert með að uppgjör við hrunið muni ekki eiga sér stað nema réttað verði yfir Geir á grunni ráðherraábyrgðar.Getur verið að uppgjörið við hrunið eigi allt undir þessari ákæru? Segjum svo að þetta kærumál myndi klikka af einhverjum sökum öðrum en frávísun þingsins. Yrði þá ekkert uppgjör við hrunið og enginn sannleikur kæmi fram?
Getur þetta verið rökrétt eða eru menn kannski farnir að keyra fastar eftir réttarhöldum en rættlæti? Hvernig getur það verið að réttlátt uppgjör við hrunið sé komið undir því að kæra fyrrum forsætisráðherra þegar kæran er eins tilkomin og þessi.
Rifjum upp að tveir flokkar sátu við völd. Annar þeirra flýtir sér að slíta stjórnarsamstarfi þegar í óefni er komið og myndar nýja stjórn sem er hliðhollari almenningi en sú fyrri. Úr þeim valdastóli kærir hún fyrrum samstarfsmann sinn og engan úr eigin liði.
Nú er mikið gert úr því að þú sért á bandi þeirra sem ekki vilja styðja þetta verklag Samfylkingarinnar. Þó virðist mest að þér sótt úr þínu eigin baklandi ef marka má skrif á netmiðla. Það er með ólíkindum ef VG ætlar að rífa sig á hol við að verja þessi ósköp Samfylkingarinnar sem voru þau einu, ef ég man rétt, sem kusu þannig að tillaga um að kæra ráðherra var ekki studd eða felld, heldur var gert upp á milli manna eftir flokkslit.
Svo koma þingmenn eins og Ólína Þorvarðardóttir og segir að Alþingi hafi opinberað sig sem hráskinnaleikur pólitískra bolabragða. Þar vísar hún til atkvæðagreiðslunnar í síðustu viku en ekki þegar þau handvöldu út Samfylkingarráðherra, þó átakið kunni ekki að hafa verið samstillt. Glópska þeirra er þó slík að þeir sem skópu vandann láta hæst í hópi þeirra sem vilja draga fram refsivöndinn og tryggja að honum sé beint að öðrum.
Ég vil að lokum þakka þér fyrir að hafa komið fram af heilindum í þessu máli.
H. Stef.

Fréttabréf