Fara í efni

EFTIRHRUNS-SAGAN

Sæll Ögmundur.
Opinber umræða á Íslandi er söm við sig. Nú ætlar allt um koll að keyra því það kom í ljós að lífeyrissjóðirnir töpuðu peningum. Íslensk kreppusagnfræði hefur ekki litið framhjá þætti lífeyrissjóðanna til þessa. Kemur nokkrum á óvart að fyrstu íslensku fyrirtækin sem blésu sápukúlur í áður óþekktum mæli fengu lífeyrissjóðina í lið með sér? Er það óþekkt að þegar hringekja íslenska efnahagsundursins snerist hraðar - og fleiri tóku þátt - spiluðu lífeyrissjóðirnir áfram með? Ef þetta vekur ekki sérstaka undrun ætti það ekki að vekja undrun heldur að það sitji eftir tap hjá sjóðunum. Tapið skapast af því að eignasafn sjóðanna var morkið af afleiðingum viðskipta á íslenskum markaði . Áhættunni af innlendum hlutabréfum og skuldabréfum. Þetta kemur m.a.s. fram í ársreikningum sjóðanna. Ef við flettum upp í LSR ársskýrslum (fáanlegar á netinu) sést að ávöxtun slær söguleg met á hverju ári frá 2003 til 2007 (nánast). Hvernig var hægt að ná 20% ávöxtun á hverju ári á íslenskum markaði (ríflega 10% raunávöxtun) án þess að spila með í froðuvexti íslenska hagkerfisins?
Tengsl lífeyrissjóðanna við bankana voru án vafa og sterkt og viðnámið of lítið. Það sést t.d. af því að litlum andmælum var hreyft þegar bankarnir tóku að sér rekstur smærri sjóða og réðu „faglegri" stjórn á fjárfestingarstefnu þeirra. M.ö.o. gátu þeir stýrt þeim jafnfaglega og þeir stýrðu peningamarkaðssjóðunum sem þeir höfðu á sínu forræði. Þetta þótti bara fín og hagkvæm lausn. Enginn sagði múkk.
Þá var ekkert viðnám gegn því að lífeyrissjóðirnir settu fleiri egg í sömu körfu því hlutabréfamarkaðurinn var rétti staðurinn fyrir fjárfestingar og stjórnvöld notuðu löggjöf til að tryggja að sjóðirnir væru örugglega að skila iðgjöldum launþega þangað - til íslenska efnahagsundursins. Það hafa allir horft upp á þetta allt í áratug og sagt ekkert. Hrunbókmenntirnar hafa gert þessu skil og menn voru ennþá frekar annarshugar. En svo allt í einu - þremur árum eftir hrun - þremur árum eftir að þetta varð meira og minna ljóst - verða allir reiðir og hissa. Og finna út að hóglífi og spilling starfsmanna lífeyrrisjóðanna sé þarna orsakavaldur. Það má skilja þetta sem svo að hefðu þeir ekki svona verið svona sólgnir í boðsferðir og góðar gjafir hefði þessi vandi trúlega gufað upp. Tenging lífeyrissjóðanna við stjórfjárfesta voru eflast háð sömu áhrifaþáttum og gilti um íslenskt efnahagslíf í heild sinni. Snemma í uppsveiflunni var þetta gráupplagt og flestir grunlausir um hvað væri í vændum. Á síðari stigum var orðið erfitt að bakka út tjónlaus. Spurningin í samhengi lífeyrissjóðanna er í rauninn hvenær föttuðu þeir þetta og hvað gerðu þeir til að takmarka skaðann? Ef þeir föttuðu þetta aldrei eru þeir glópar. Það er spurning hvort það sé saknæmt eitt og sér. Ef þeir föttuðu þetta allan tímann en spiluðu með vegna þess að þeir fengu góðar gjafir (eins og látið er liggja að í dag) þá eru þeir sömu þátttakendur í samsæri. Það er eiginlega ekki hægt að halda því fram án þess þess að skoða það efnislega. Þetta er allt sama eftirhrunssagan. Þeir sem segja/selja söguna þurfa sífellt að bæta í til þess að halda athygli lesenda þegar lengra líður frá hruni til þess að halda fólki við efnið.
Þórður H.

Ég þakka þér frábært bréf þitt sem hittir naglann á höfuðið! Eitt er þó rangt hjá þér, og það er að enginn hafi sagt múkk við því að bankar (t.d. Kaupþing) tóku að sér rekstur minni sjóða. Þessu var andæft mjög harðlega. Ég veit það vegna þess að ég gerði það sjálfur. Sama á við um "faglega" ráðgjöf bankanna. Það var EKKI horft þegjandi á þetta af allra hálfu. Ég gerði það ekki og mun aldrei sitja undir því að svo hafi verið. 
Kv.,
Ögmundur