Fara í efni

HVERT GAGNRÝNIN BEINIST

Sæll Ögmundur.
Það er hlálegt að forysta launþega noti almenna félagsmenn sem skjöld þegar sótt er að þeim sjálfum. Nú mótmælir BSRB ummælum þínum úr ræðustóli Alþingis og segir vegið að starfsheiðri opinberra starfsmanna. Þegar ummæli þín eru skoðuð sneru þau að einhverju sem þú kallaðir stofnanaveldið. Gagnrýnin sneri að því að almenningur væri undanskilinn á meðan samtök launþega, atvinnurekenda og stjórnsýslan væri á spenanum. Það væri skýringin á því að afstaða almennings til sambandsins væri frábrugðin afstöðu þessara hópa. Að þessu leyti snýr gagnrýnin vissulega að BSRB en þá að þeim sem sitja við kjötkatlana, ekki almenna félagsmenn. Gagnrýnin beinist klárlega að stjórnsýslunni en þá að þeim sem hafa komið ár sinni vel fyrir borð. Hafa áhrif og taka ákvarðanir um hvert er farið og hvaða erinda. Þá er vel komið fyrir kjarabaráttu á Íslandi ef þessi ummæli eru það eina sem fær blóðið til að renna hjá forystunni.
Ingveldur