LÍFEYRISSJÓÐIR OG RÍKISÁBYRGÐ

Hrafn Magnússon skrifar grein í Fréttablaðið þar sem hann mótmælir einhverju sem þú hefur sagt um að lífeyrissjóðirnir eigi að lána til verka sem gagnast samfélaginu. Hrafn óttast mjög tvö orð í þínum málflutningi en þú munt hafa vísað til þess að lífeyrissjóðir skuli lána til ríkisins á "hagstæðum kjörum".
Nú myndi ég telja að ríkið ætti ávallt að fá hagstæð kjör. Ríkisábyrgð þykir venjulega eftirsóknarverð. Í ljósi reynslunnar ættu menn að minnsta kosti að hafa í huga að hæsta endurgjald á markaði getur verið boðið af mönnum með takmarkaða burði til að standa við kostakjörin.
En þá getur maður spurt sig af hverju gamlir lífeyrissjóðamenn eru svona fráhverfir þeirri hugmynd að lífeyrissjóðsframlag landsmanna nýtist til samfélagslegrar uppbyggingar? Einkafyrirtæki keppast við að sýna samfélagslega ábyrgð og vera í virkri samræðu við sitt samfélag í því efni en lífeyrissjóðirnir vilja bara koma peningunum á erlenda hlutabréfamarkaði!
Þá hafa einkafyrirtæki ekki vílað fyrir sér að koma að einkaframkvæmd fyrir ríkið enda hafa slík verkefni venjulega tryggt hagsmuni þeirra upp í topp - sem er kannski umdeilanlegt - en lífeyrissjóðirnir ættu ekkert síður að geta varið hagsmuni sína gagnvart ríkinu.
Mér fundust þessi viðhorf Hrafns því hljóma dálítið undarlega. Nógu undarlega til að gera einfalda netleit. Hrafn er titlaður fv. framkvæmdastjóri landsamtaka lífeyrissjóða í blaðinu, en fyrsta niðurstaðan af netinu greindi þó frá því að hann hefði setið í stjórn eins útrásarverkfærisins - Atorku. Svo var eitthvað um að sami Hrafn hefði staðið gegn því að koma með lífeyrissjóðspeninga heim eftir hrun til að fjármagna endurreisnarverkefni eins og að tvöfalda suðurlandsveg í grennd við Selfoss. Þá var eitthvað um að hann hafði tjáð sig fyrir hönd lífeyrssjóðanna um að þeir ættu ekki að taka þátt í að fjármagna kaup á HS-Orku í stað Magma Energy þegar það var allt í gangi. Í því efni er tengingin við Atorku-stjórnarsetuna reyndar áhugaverð. Var það ekki þannig að Magma keypti hlut Geysis Green fyrir 16 milljarða? Það minnir mig.
Markmiðið með þessum pósti er e.t.v. að vara við að þau viðhorf lífeyrssjóðamanna sem keyrði þá í of mikla áhættutöku og of þröngan útreikning á hagsmunum iðgjaldagreiðenda eru enn viðruð. Mikið væri gott ef umræða um framtíð lífeyrissjóðakerfisins myndi ekki endurtaka tuggurnar sem komu kerfinu í þrot til að byrja með.
Heimir

Fréttabréf