Fara í efni

SÁU ÞETTA FYRIR FERMINGU!

Nú er liðin vika af Landsdómi og það er strax komið meira en nóg. Þeir sem í einlægni trúðu því að þarna væri haslaður völlur fyrir hið endanlega uppgjör við hrunið hljóta að telja þetta guðlast. Allir sem koma þarna fram hafa persónulega hagsmuni af því að segja söguna með tilteknum hætti.
Hagfræðingar leggja kapp á að hafa séð teikn á lofti fyrir löngu, helst fyrir fermingu, og yfirbjóða hverjir aðra í því efni. Embættismenn leggja áherslu á að hafa kynnt öll mál fyrir sínum ráðherra. Þá eru þeir á lygnum sjó. Þeim sem legið hefur verið á hálsi að hafa ekki staðið sig fá tækifæri til að segja frá því hvað þeir lögðu hart að sér. Bankastjórarnir eru vissari en nokkru sinni að ríkið hafi rænt þá lifibrauði sínu með inngripi í starfsemi markaðarins (enda geta þeir ekki sagt annað með lögsókn hangandi yfir sér fyrir samsæri).
Svo kórónar Jóhanna allt með því að margendurtekinni málsvörn um að Davíð sé sá seki. Geir er þarna í mikilvægu aukahlutverki. Án hans kæmist enginn annar á svið.
Allar prímadonnurnar syngja sitt sólónúmer og koma því að í þakklætisskyni að Geir sé nú ágætur. Það sem kemur fram þarna er skrumskæld útgáfa af því sem þegar var vitað. Framsetning rannsóknarskýrslu Alþingis vísar í gögn og er samsett með einhverri greiningu. Þarna romsar fólk frekar frjálslega og það sem límir frásögnina saman er persónuleg túlkun og sjálfsréttlæting. Það var þekkt hvar von var á afstöðumun og skoðanaágreiningi. Í þessari útgáfu sögunnar sitja menn enn fastar við sinn keip og eru forhertari en áður eftir að hafa fengið tíma til umþóttunar. Þegar allt er tekið saman eru þetta eins og flær á feldi sem allar hamast, en það er erfitt að finna því starfi göfugan tilgang.
Árni V.