Fara í efni

UM TRÚARLEGT RÓTARKERFI

Vil þakka þér vel valin orð og skynsamleg í ávarpi á morgunverðarfundi um trúfrelsi sem ég las hér á síðunni. Sjálf er ég þeirrar skoðunar að Þjóðkirkja sé þokkalegur ventill á öfgahópa í trúarefnum og að það sé líklegt að þjóðin (amk80%) vilji kristin sið sem, rótarkerfi sitt áfram. ,,Trúfrelsi" er vandmeðfarið, t.d. þegar menn komast upp með hatursáróður vegna jákvæðs (frelsi til) trúfrelsis og í krafti trúarlærdóma (dogma).
Dómstólar hafa lýst sig vanmegnuga gagnvart ,,hatursáróðri" vegna trúfrelsis. Þannig komst danskur prestur upp með hatursáróður af því hann vísaði í sitt kver. Skammt er að minnast svipaðs atviks á Akureyri. Hvað varðar ísl. þjóðkirkjuna (með litlu þ) þá langar mig að benda á að e.t.v. sé kominn tími til að trúmálabálkur stjórnarskrárinnar fjalli um KRISTNI sem þjóðkirkju en einskorði sig ekki við evangelísk-lúterskan arm eins og 62. gr. gerir nú í samhengi 63. gr en þessar tvær eru arfur frá því að talað var um ,,guðstrú" þegar átt var við lútersku og katólsku í senn en 63. gr heimilaði sem sagt undantekningu frá lúterskunni, og það var nú það, trúfrelsi sem í boði var 1874.
Það er mikil þörf á yfirvegaðri umræðu um þessi mál: þjóðkirkju, trúfrelsi og innheimtu ríkisins á félagsgjöldum til starfsemi lífsskoðunarfélaga. Síðustu ár hefur ríkið rænt af þjóðkirkjusöfnuðum hluta innheimtra félagsgjalda - og með frumvarpi þínu sem nú er í nefnd hefur fjármálaráðuneytið gefið skýrt í skyn að kaka aðildargjalda muni bara dreifast á fleiri - en ekki stækka.
Maður hlýtur því að spyrja hvort ríkið sé ekki nú þegar brotlegt gagnvart 62.ákvæði stjórnarskrárinnar um ,,vernd og stuðning" við þjóðkirkjuna.
Hulda Guðmundsdóttir, MA-guðfræðingur, sóknarnefndarformaður og kirkjueigandi í Skorradal