Fara í efni

UNDARLEG FRÉTTASKÝRING

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, kom fram í fjölmiðlum í gær með undarlega stjórnmálaskýringu: „Við höfum haft ríkisstjórnir hægri, vinstri flokka, ríkisstjórnir hægri, miðjuflokka og ríkisstjórnir vinstri miðjuflokka. En þetta er í fyrsta skipti síðan í kreppunni miklu fyrir stríð að stjórnin er algjörlega einsleit. Það kallar á meiri átök og þá má kannski segja að þjóðin hafi valið í síðustu kosningum að þetta kjörtímabil yrði tímabil átakastjórnmála."
Ha? Hvað er maðurinn að fara? Flokksheiti segja ekki allt um innihaldið. Þannig er Samfylkingin ekki mikill vinstri flokkur og VG hefur verið að færast í hægri áttina einnig, þa.e. að hluta til.
Átakalínan hefur því að takmörkuðu leyti legið milli þessara flokka, heldur innan VG um stefnu og framkvæmd sem snýr að auðlindum og eignarhaldi, sbr., Magma og HS orku og ýmsum grundvallarmálum í samfélagsmálum.  Síðan eru flokkarnair ósammála um ESB. Þar eru vissulega átök en það er eðlilegt. Annað væri óeðlilegt. En aftur þarna virðast átökin vera innan VG fyrst og fremst.
Það vottar ekki fyrir raunsærri pólitískri greiningu hjá Þorsteini. Hann talar úr fortíð þar sem allir hlýddu innan flokks. Það er liðin tíð sem betur fer, alla vega hjá sumum stjórnmálaflokkum. Sjálfstæðisflokkurinn er kannski enn í samræmdu göngulagi. 
En það sem ég vildi sagt hafa er að pólitík verður ekki skilgreind með tilvísan til stjórnmálaflokka heldur til þess sem þeir gera þegar á hólminn er komið. Það ætti að vera viðfangsefni stjórnmálaskýrenda að rýna í þann veruleika.
Jóhannes Gr. Jónsson