Fara í efni

VIÐ EIGUM RÉTT Á UPPLÝSTRI UMRÆÐU

Íslendingar eiga heimtingu á upplýstri umræðu um fyrirhugaðar stórframkvæmdir á Grímsstöðum á Fjöllum. Ögmundur þú stendur þig vel í þessu máli sem öðrum - samkvæmur sjálfum þér.
Það hlýtur að vera öllu sæmilega vitibornu fólki mikið umhugsunarefni hvað á að ganga langt í að lofa erlendum aðilum að komast á einn eða annan máta yfir landið okkar. Þeir sem til þekkja hljóta líka að vera fullir efasemda um þessar áætlanir/framkvæmdir á öræfum Íslands sem hafa verið kynntar sem hótel - golfvellir og flugbrautir.
Vissulega er flest hægt með peningum en náttúran verður nú varla hamin eingöngu með þeim. Hins vegar hjóta allir Íslendingar að eiga rétt á að fá að sjá - í það minnsta heyra - hvaða framkvæmdir eru þarna fyrirhugaðar og tímaröðun þeirra - gleymum ekki að ríkið á stóran hlut í þessari óskiptu jörð.
M.ö.o. það er ekkert sjálfgefið að einn eigandinn geti sagt að "Grímsstaðatorfan" tilheyri honum og aðrir átt hitt. Hvaða landsvæði ætlar ríkið að afsala sér af þessu óskipta landi til væntanlegs nágranna og hvernig á að afmarka það land?
Hver er reynsla annarra þjóða af svona kattarsekkjarkaupum? Það heyrast sögur frá Svíþjóð - Bandaríkjunum og mörgum fleiri löndum. Hefur þetta verið skoðað? Á ekki almenningur heimtingu á upplýstri umræðu um málið svipað og verið væri að fara í virkjanir? Hvað með umhverfismat? - og svo mætti áfram spyrja. Enn og aftur; varast ber að setja saman í einn dall andstöðu við þessa loftkastala og andstöðu við erlendar fjárfestingar; þær geta verið hið besta mál en þær geta líka verið fyrsti vísir að slíkum vanda að við verði ekki ráðið.
Sem sagt: Almenningur hlýtur að eiga rétt á upplýstri umræðu um þetta viðkvæma mál sem snertir alla Íslendinga.
Níels Árni Lund