Fara í efni

EF ÉG ÆTTI SPARIFÉ...

Hlutabréf í Regin h.f. seljast sem heitar lummur. Eftir bankahrunið þegar sparnaður þúsunda Íslendinga í formi hlutabréfa urðu að engu ásamt hlutabréfaeignum lífeyrissjóða þá er fyllsta ástæða til varfærni. Hrunið varð vegna þess að hér á landi var ekkert gert til þess að forðast svonenfd krosseignatengsl og önnur brögð í viðskiptum. Í fyrirtækinu Exita var t.d. hlutafé í fyrirtækinu aukið um 50 milljarða án þess að ein einasta króna rynni inn í fyrirtækið. Hins vegar var bréfssnifsi, hlutabréf í einhverju huldufyrirtæki sem enginn kannast við, lagt inn í fyrirtækið rétt eins og innlegg bænda í Kaupfélagið í fyrri tíð. Tilgangurinn var auðvitað að sýna öðrum hluthöfum langt nef enda var þeim boðið að hver króna hlutafjár væri greidd með 2 aurum! Í tíð hermangsins og brasksins kringum herlið Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli var Reginn h.f. stofnað fyrir um 50 árum. Lengi vel deildu fulltrúar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins völdum í því fyrirtæki sem m.a. byggði stór hús við Höfðabakka í Ártúnshverfinu í Reykjavík. Þessi hús blasa við öllum sem leið eiga um Vesturlandsveginn austan Elliðaárbrekku, minnisvarði um einstaka aðferðafræði hvernig unnt er að auðgast fljótt og vel gegnum hermang. Síðan hafa umsvif þessa fyrirtækis að því virðist hafa aukist. Ef ég ætti sparifé teldi ég því betur komið á nánast vaxtalausum reikningi í bönkunum en að kaupa hlutabréf í fyrirtæki þessu. Að öllum líkindum verða örlög sparifjár þeirra sem sjá möguleika á góðri ávöxtun verða að engu rétt eins og gerðist áður þegar braskaranir léku sér að almúgafólki með því að féfletta það fljótt og auðveldlega. Ég minnist hlutabréfanna í bönkunum, Atorku, Existu og öllum þessum fyrirtækjum sem nú eru týnd og tröllum gefin. Þau virðast vera einskis virði þó fyrir þau hafi verið greidd með beinhörðum peningum, sparnaði þúsunda í áratugi.
Guðjón Jensson