HAF ÞÖKK!

Sæll og blessaður Ögmundur, þú hefur heldur betur sannað þig og vaxið undanfarið. Þú ert sannarlega sómi Íslands, sverð þess og skjöldur. Í hverju málinu á fætur öðru hefur þú hreinlega bjargað þessari þjóð frá klúðri og vitleysisgangi sem staðið hefur eins og vá fyrir dyrum. Hafðu þakkir fyrir og heiður.
Tökum dæmi um það sem þú hefur áorkað fyrir þjóðina: 1. Þú stóðst einn manna í ríkisstjórninni gegn Icesave á örlagastundu. Þú beinlínis settir sjálfan þig út úr ríkisstjórn til að verja okkur hin fyrir þeim ósköpum sem það mál hefði kallað yfir okkur. Hvenær sést það að einn maður fórni ráðherraembætti til varnar sinni þjóð? Þótt þú hafir ekki fylgt því eftir í síðasta umgangi Icesave þá reyndist þú samt vera síðasta vörnin okkar. 2. Þú stöðvaðir þá ósvinnu að selja undan okkur landið. Aftur stóðst þú í fæturnar gegn endemis fíflagangi. Engin þjóð með heilu viti selur undan sér tilveruna fyrir nokkrar glerperlur. 3. Þú ert kominn fram með góðar tillögur og hugmyndir um eftirlit með kynferðisglæpamönnum. Þarflegt þótt fyrr hefði verið. Aðrar þjóðir fá ekkert hland fyrir hjartað þótt fylgst sé með þessum stórhættulegu einstaklingum. Markmiðið er jú að vernda og koma í veg fyrir að eyðilögð sé líf annarra. 4. Loks ert þú búinn að taka saman kvótamálin í grein þar sem þú hittir á alla réttu punktana í því máli. Frábær grein þar sem hvert einasta atriði er rétt og rökstutt. Við sem þjóð verðum að taka til baka auðlindina okkar OG við verðum að fá eðlilega leigu fyrir aðgang að henni.
Núverandi frumvarp gengur of skammt. Nú er ég, og hef alltaf verið, hægrimaður. Þrátt fyrir það hef ég getu til að sjá hvað gert er vel og rétt. Þú hefur gert bæði vel og rétt. Haltu því áfram. Að lokum, ef þú vildir fá vinsamlegt feedback, þá get ég bent þér á að það eina sem þú mættir bæta er að styrkja lögregluna betur. Þeir þurfa bæði betri vopn til að verja sig og heimildir til að berjast við glæpalýð sem virðir engin lög eða reglur. Augljóslega er ekki hægt að ætlast til að þjóðfélagið sé varið gegn glæpum með hendur bundnar fyrir aftan bak. Þú vilt heldur ekki vera á vaktinni þegar fyrsti lögreglumaðurinn er drepinn vegna þess að hann fékk ekki tækin til að geta varið sig.
Með bestu baráttukveðju,
Jón Daði Ólafsson

Fréttabréf