Fara í efni

TEFUR ÞÚ VAÐLAHEIÐAR-FRAMKVÆMD?

Sæll vertu kæri Ögmundur.
Nú þarft þú að svara mér, og helst fyrir prófkjör hvort satt sé að Vaðlaheiðargangamálið strandi nú á þér. Sem Vinstri grænn Þingeyingur er ég látinn svara fyrir þessa ríkisstjórn og geri það glaður. Hinsvegar á ég ekki svör við því þegar stjórnarmeðlimir Greiðrar leiðar tala um að þú standir nú í vegi fyrir áframhaldandi framkvæmdum og að verktakarnir séu við það að rifta samningnum og kæra. Við í UVG köllum þetta að Ömma hlutina fram af sér. Eins miklir skoðanabræður og við erum, báðir hálf undarleg stök í mengi VG, þjóðkirkjusinnarðir og hálf anarkískir á köflum, bið ég þig nú um að segja mér hvort að satt sé að málið strandi á þér. Víkurskarðið hefur verið ófært síðustu 4 helgar, þetta er mér mikið hjartans mál, sérstaklega þar sem að akkúrat í þessum skrifuðu orðum er ólétt kærasta mín veðurtept vegna ófæðrar í Fnjóskadal. Gangi þér vel í prófkjörinu félagi Ögmundur, ég krefst svara.
Í kærleika,
Þingeyingur

Svarið er afdráttarlaust neitandi. Þetta hefur snúist um að bera sig rétt að, bæði af hálfu Innanríkisráðuneytis og Fjálrmálaráðuneytis við frágang samninga. Mundu að við erum að tala um gríðarlegar fjárhæðir sem reiddar verða fram á ábyrgð skattborgara því fyrstu árin verður framkvæmdin algerlega  fjármögnuð með lánsfjármagni ríkissjóðs. Síðan er hitt -  með fullri virðingu fyrir áhugafólki um Vaðlaheiðargöng sem ég studdi ekki að yrðu tekin út úr forgangsröðun samgönguáætlunar eins og gert var -  að þá er náttúrlega víðar á landinu ófært en á Víkurskarð þessa daganai!
En það var samþykkt Alþingis að taka Vaðlaheiðargöng fram fyrir ýmsar aðrar samgöngubætur og þótt ég styddi ekki þá ákvörðun þá virði ég hana að sjálfsögðu og stend alls ekki í vegi fyrir framgangi málsins. Þú getur fullyrt það með góðri samvisku við þá sem öðru halda fram.
Með kveðju,
Ögmundur