Fara í efni

SIGURJÓN, HELGI HALLGRÍMSSON OG HRAFNKELL FREYSGOÐI UM LAGARFLÓT

Sæll vertu Ögmundur.
Umhverfismál voru á dagskrá hjá VG í Hamraborginni í Kópavogi í kvöld 18. apr.‘13. Þar bar margt á góma. Meðal annars áhrif Kárahnjúkavirkjunar á Lagarfljót. Allir þeir sem vilja, vita að fiskveiði hefur verið stunduð í Lagarfljóti frá fornu fari og verið til búdrýginda fólkinu sem hefur búið meðfram fljótinu. Áður fyrr var þetta nauðsynlegt til að auka fjölbreytni í mataræði, en á seinni árum einnig stundað vegna ánægjunnar af veiðiskapnum. Fiskurinn var misjafn af gæðum eftir því hvar hann veiddist í fljótinu, en allt var étið því þetta var það sem fólkið lifði við. Sjógenginn fiskur gekk upp að fossinum í Lagarfljóti. Sjóbirtingur, sjóbleikja og lax og voru mikil hlunnindi af því. Með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar minnkar fæðuframboð fyrir fiskinn í fljótinu og þá vitna ég í orð Helga Hallgrímssonar náttúrufræðings, en þar segir:
„ Alkunna er að plöntur þurfa ljós til að geta þrifist. Sumarið 1975 var birtan aðeins um 1% á 1 m dýpi í Leginum, en það er nokkurn veginn það vatnslag sem plöntur geta starfað í. Eftir breytinguna þynnist þetta lag um helming og því má ætla að frumframleiðsla minnki að sama skapi. Hjá því getur ekki farið að dýralíf fljótsins rýrni verulega við þessa breytingu, því að smádýr eru að miklu leyti háð magni þörunga og annara vatnaplantna, en þau eru aðalfæða fiska og sumra fugla. Allt lífríki fljótsins hlýtur því að minnka, bæði að fjölbreytni og magni."
Landeyðing meðfram Lagarfljóti er svo annað stórmál og ef aukinn straumhraði í fljótinu kemur í veg fyrir að fljótið leggi á veturna þá verður norðanáttin biturri fyrir menn og málleysingja vegna hærra rakastigs. Hér á eftir fylgir fjórtándi kafli út Hrafnkels sögu Freysgoða sem sýnir að þá þegar höfðu menn miklar nytjar af fiskinum í Lagarfljóti:
"Hrafnkell færði nú bú sitt austur yfir Fljótsdalsheiði og um þveran Fljótsdal fyrir austan Lagarfljót. Við vatnsbotninn stóð einn lítill bær, sem hét að Lokhillu. Þetta land keypti Hrafnkell í skuld, því að eigi var kosturinn meiri en þurfti til búshluta hafa. Á þetta lögðu menn mikla umræðu, hversu hans ofsi hafði niður fallið, og minnist nú margur á fornan orðskvið, að skömm er óhófs ævi. Þetta var skógland mikið og mikið merkjum, vont að húsum, og fyrir það efni keypti hann landið litlu verði. En Hrafnkell sá ekki mjög í kostnað og felldi mörkina, því að hún var stór, og reisti þar reisilegan bæ, þann er síðan hét á Hrafnkelsstöðum. Hefir það síðan verið kallaður jafnan góður bær. Bjó Hrafnkell þar við mikil óhægindi hin fyrstu misseri. Hann hafði mikinn aðdrátt af fiskinum. Hrafnkell gekk mjög að verkum, meðan bær var í smíði. Hrafnkell dró á vetur kálf og kið hin fyrstu misseri, og hann hélt vel, svo að nær lifði hvertvetna það, er til ábyrgðar var. Mátti svo að kveða, að nálega væri tvö höfuð á hverju kvikindi. Á því sama sumri lagðist veiður mikill í Lagarfljót. Af slíku gerðist mönnum búshægindi í héraðinu, og það hélst vel hvert sumar."
Mínar bestu kveðjur,
Sigurjón EVG í Hamraborg í Kópavogi